Allt sem þú vilt vita um dýrin stór og smá á einum stað

Mig langar að segja þér sögu.

 

Þegar ég var í dýralæknanámi varð ég að láta aflífa minn eigin hund vegna þess að hún hafði bitið barn sem var gestkomandi á heimilinu. Þessi hundur var fyrsti hundurinn minn, ég elskaði hana heitt og ég hafði farið með hana á námskeið og reynt að gera allt rétt í uppeldinu eftir því sem mér hafði verið kennt. Þetta var mér gríðarlegt áfall. Mér fannst að ég hefði átt að vita betur, hefði átt að læra meira og hefði ekki átt að gera sumt af því sem ég lærði. Ég var full sektarkenndar og það voru þungbær spor að fara með hana í síðustu heimsóknina niður í skóla. Mér fannst ég hafa brugðist bæði henni og mér en ég treysti mér ekki til að hafa hund á heimilinu sem ekki var hægt að treysta innan um börn.

Þessi lífsreynsla varð til þess að ég fékk gríðarlegan áhuga á atferlisfræði. Ég fór að lesa bækur um efnið og lokaverkefnið mitt í dýralækningum var rannsókn á ástæðum þess að hundar og kettir væru aflífuð á Íslandi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru sláandi, atferlisvandamál voru ástæða aflífunar hjá 17% katta og 23% hunda. Enginn stakur sjúkdómur felldi jafn mikið af hundum og atferlisvandamál. Ég tók eftir því að margar bækur sem ég las um efnið gáfu misvísandi upplýsingar og það virtist engin leið að sjá hvaðan höfundarnir höfðu heimildir sínar. Ég ávað að ég yrði að læra meira um þetta og fann háskóla í Englandi þar sem ég stundaði nám í 4 ár til að læra að hjálpa fólki að takast á við atferlisvandamál í hinum ýmsu dýrum. Ég lærði vísindin á bakvið atferli og hegðun dýra, lærði að lesa líkamstjáningu dýra og hvernig væri hægt að móta hegðun þeirra til að losna við vandamál.

Núna langar mig að hjálpa íslenskum hundaeigendum að ala upp hvolpinn sinn til að vera góður félagi, að hjálpa hundaeigendum að leysa vandamálin en líka að kenna fólki hvernig hægt er að ná sterkari tengslum við hundinn sinn með því að skilja betur þarfir þeirra og táknmál.

Nýjustu greinarnar

Hvolpahandbókin

Hvolpahandbókin er handhægt uppflettirit fyrir alla hvolpaeigendur sem og eigendur eldri hunda. Í bókinni er farið yfir flest það sem þarf að vita um hvolpinn, allt frá því hvernig velja skal hentugan félaga þar til kemur að því að þjálfa hann. Meðal annars er fjallað um við hverju má búast fyrstu sólahringana á nýja heimilinu, þroskaferli og heilsufar hvolpsins, algenga heilsufarskvilla og viðbrögð við slysum og sjúkdómum. Stuttlega er farið yfir grunnatriði í þjálfun hvolpsins og algeng hegðunarvandamál eins og nag og flaður.

 

Lengi býr að fyrstu gerð og er mikilvægt að vanda til verka strax í upphafi. Fyrstu skrefin skipta sköpum við að móta hund sem er í andlegu jafnvægi, hlýðinn og laus við atferlisvandamál.

 

Hvolpahandbókin uppfyllir þörf eiganda um aðgengilegt fræðsluefni á íslensku.

Vinsælustu greinarnar

Um Sif dýralæknir

Hver er ég og hvernig get ég hjálpað þér?

Ég ákvað þegar ég var lítil að ég vildi verða dýralæknir þegar ég yrði stór. Ég lærði líffræði í háskóla Íslands og tók svo stefnuna til Danmerkur þar sem ég lærði dýralækningar við konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Á lokanámsárinu mínu fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna, nánar tiltekið University of California sem staðsettur er í Davis, Kaliforníu. Þar komst ég í kynni við mjög háþróað sjúkrahús fyrir gæludýr og lærði mikið um skurðlækningar sérstaklega.

Eftir það flutti ég aftur til Íslands og hóf störf við smádýralækningar á höfuðborgarsvæðinu. Ég var ein af stofnendum Dýralæknamiðstöðvarinnar í Grafarholti sem opnaði í mai 2007. Vegna þess hvað ég hafði mikinn áhuga á atferlisfræði dýra ákvað ég að hefja nám í atferlisfræði við háskólann í Southampton í Englandi og útskrifaðist með diplómagráðu í atferlismeðferð gæludýra (Companion Animal Behaviour Counselling) eftir fjögurra ára nám.

Í mai 2015 tók ég mig til og lagði af stað í mikið ferðalag um Evrópu. Ég keypti mér húsbíl og ferðaðist í honum með hundinn minn í marga mánuði og sér ekki fyrir endann á því ferðalagi. Hún Sunna, sem er með mér á myndinni, er mikill fyrirmyndarhundur og vekur mikla lukku allsstaðar þar sem við komum. Hún hefur meira að segja útskrifast úr ítölskuskóla á Ítalíu!

Hafðu samband