Það er ótvírætt mikil gleði fólgin í því að eiga gæludýr og gæludýraeign hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu bæði barna og fullorðinna.  Sýnt hefur verið fram á að blóðþrýstingur manna lækkar þegar þeir handfjatla gæludýr og að gæludýraeigendur eiga auðveldara með að jafna sig á andlegum áföllum í lífinu.  Einnig er vitað að umgengni við gæludýr getur haft góð áhrif á hreyfigetu og andlega líðan fatlaðra og aldraðra.  Hundaeigendur verða oft varir við að gæludýrið brýtur ísinn í samskiptum við fólk á förnum vegi og margir vilja stoppa til að klappa hundinum og spjalla við eigandann í leiðinni.

Þó hentar gæludýraeign ekki öllum og mikilvægt er að velta því fyrir sér áður en gæludýr er fengið hversu mikil vinna og ábyrgð fylgir dýrinu.  Hverskonar umgjörð/búr þarf dýrið?  Hversu lengi má búast við að dýrið lifi?  Hvernig er umönnun dýrsins háttað?  Hvað kostar að eiga dýrið?  Ekki gleyma að gera ráð fyrir dýralæknakostnaði.  Þrátt fyrir að mörg dýr þurfi sjaldan eða aldrei að fara til dýralæknis er ekki gott að standa frammi fyrir því að þurfa að láta aflífa elskað gæludýr vegna þess að ekki er til peningur til að borga fyrir dýra meðhöndlun.  Fyrir stærri dýr eins og hunda, ketti og hesta borgar sig að kaupa sjúkdóma- og slysatryggingu, en þá greiðir tryggingafélagið stærstan hluta kostnaðar við dýra meðhöndlun.  Hafið í huga að tryggingin er einungis hugsuð til að bæta kostnað vegna sjúkdóms eða slyss, en ekki reglulegan kostnað eins og bólusetningar og tannhirðu.  Hvað verður um dýrið þegar fjölskyldan fer í frí?  Ef ekki er hægt að koma dýrinu í pössun til vina eða vandamanna verður að senda það á gæludýrahótel, en sá möguleiki er sem betur fer í boði hér á höfuðborgarsvæðinu fyrir öll dýr, stór og smá.

Foreldrar sem vilja gefa barninu sínu gæludýr þurfa líka að hugsa um hvers vegna er verið að fá gæludýr á heimilið.  Ætlum við að kenna barninu um ábyrgð?  Þá verða foreldrar að gera sér ljósa sína ábyrgð og taka við umönnun dýrsins ef áhugi barnsins dvínar.  Aðeins þannig komum við í veg fyrir ónauðsynlega aflífun heilbrigðra dýra og sektarkennd sem getur þjáð barnið, þrátt fyrir að það hafi kannski alls ekki haft þroska til að standa undir ábyrgðinni til að byrja með.  Það er ábyrgð foreldra að sjá til þess að gæludýr séu vel hirt og öllum þörfum þeirra sinnt, ásamt því að fara með dýrið til dýralæknis þegar þess þarf.

Rannsóknir hafa sýnt að börn sem alast upp með dýrum eru hraustari en önnur, þeim hættir til dæmis síður til að fá ofnæmi og astma.  Einnig eru þau betur í stakk búin til að takast á við andleg áföll, en ástæða þess er talin tvíþætt.  Annars vegar hafa þau lært um líf og dauða þegar gæludýrin deyja og hins vegar hafa þau dýrið sem einskonar sálufélaga, dýrin hlusta á allt sem barnið segir, kjaftar ekki frá og dæmir ekki.

Það er því ástæða til að hvetja alla sem geta og vilja að fá sér gæludýr, en ekki verður lögð nægilega mikil áhersla á að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir gæludýraeign.

Comments