Margir hafa áhuga á að taka hundinn með sér þegar farið er að heiman, hvort sem er í stuttar ferðir innanlands eða jafnvel þegar flytja skal til útlanda. Á Íslandi eru í gildi strangar reglur um sóttvarnir sem þýðir að allir hundar og kettir sem koma til landsins þurfa að vera í einangrun í 28 daga og undirgangast margskonar bólusetningar og sýnatökur áður en þau mega fara inn í landið. Þetta gerir að verkum að íslenskir gæludýraeigendur geta ekki auðveldlega tekið hundinn eða köttinn með sér í frí til útlanda en margir taka gæludýrið með þegar flutt er til útlanda í lengri eða skemmri tíma.

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er öryggi.

Ekki bara öryggi gæludýrsins, heldur líka öryggi annarra sem eru að ferðast. Eitt sem fólk hugsar oft ekki um er að hafa hundinn vel merktann. Ef þú ert að fara í heimsókn á ókunnuga staði eða lendir í óhappi á leiðinni og hundurinn sleppur frá þér er ómetanlegt að hundurinn sé vel merktur. Hafðu einnig í huga að hundur sem er laus í bíl getur slasast alvarlega og/eða kastast út úr bílnum við slys og þarf því að nota öryggisbúnað alveg eins og hjá fólki. Stór hundur sem er laus afturí bíl og kastast fram í bílinn við slys getur líka valdið alvarlegum slysum á fólki í bílnum.

Annað sem þarf að hafa í huga er líðan hundsins

Ef hvolpurinn eða hundurinn er ekki vanur að ferðast í bíl þarf að venja hann við það. Í upphafi er gott að fara í nokkur skipti í bílinn og prófa öryggisbúnað án þess að setja bílinn í gang. Hafa með góðbita og gefa hundinum. Síðan er prófað að setja bílinn í gang og ef hundurinn sýnir engin merki um streitu er farið í stuttan bíltúr. Það er gott að hafa einhvern annan en bílstjórann til að gefa hundinum góðbita á meðan hann venst því að ferðast í bílnum.

Sumir hundar fá ferðaveiki en gott ráð við henni er að láta hundinn ekki ferðast þegar hann er nýbúinn að borða og nota adaptil sprey í bílinn. Adaptil er lyktarhormón sem dregur úr streitu hjá hundum og virkar vel til að draga úr streitu og ferðaveiki. Það er notað þannig að efninu er úðað inn í búrið áður en hundurinn fer þar inn. Ef hundurinn er gjarn á að kasta upp eða slefa mikið í bílferðum er hægt að fá ógleðilyf hjá dýralækninum sem geta hjálpað.

Margir velta fyrir sér hvort það sé ástæða til að gefa hundum róandi lyf fyrir bílferðir. Ég mæli með því að gefa ekki róandi lyf nema í algerum undantekningartilfellum, það er að segja ef fara þarf með bílveikan eða hræddan hund um langa leið í bíl. Til að fá róandi lyf þarf að tala við dýralækni tímanlega.

Ferðast í bíl

Hægt er að fá sérstök bílbelti fyrir hunda og einnig sérstakar festingar til að festa beisli hundsins við bílbeltið í bílnum. Öruggast er þó að hafa hundinn í búri þegar ferðast er í bíl. Hægt er að fá bæði plastbúr og málmbúr af ýmsum gerðum. Stærð búrsins þarf að vera þannig að hundurinn geti staðið inni í því, snúið sér við og legið þæginlega. Það er hægt að festa minni búr með sætisólum en fyrir stærri hunda er jafnvel hægt að fá sérútbúin búr í skottið á bílnum. Í lengri ferðum er nauðsynlegt að stoppa reglulega og leyfa hundinum að fara út úr bílnum og teygja úr sér og bjóða upp á vatn á leiðinni. Ef hundurinn er ekki ferðaveikur getur verið gott að hafa með smá mat eða góðbita og bjóða hundinum þegar stoppað er.

Ferðast í flugvél innanlands eða til útlanda

Þegar ferðast er með hunda eða ketti í flugvél er jafnan gerð krafa um að dýrið sé í þartilgerðu búri. Á Íslandi er ekki hægt að ferðast með hund inni í farþegarýminu og þeir eru hafðir í sérstöku hólfi í flugvélinni. Þar sem hundurinn er einangraður frá eiganda sínum og ekki vanur að ferðast á þennan hátt eru meiri líkur á að hann verði hræddur en í bílferð. Þrátt fyrir það mæli ég ekki með að notuð séu róandi lyf nema vitað sé að hundurinn sé hræddur við að ferðast eða hræddur að eðlisfari. Ef þú hefur fengið róandi lyf fyrir hundinn hjá dýralækni er mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum um skammtastærð og lyfin eru vanalega gefin um hálftíma áður en lagt er af stað út á flugvöll þannig að þau hafi tækifæri til að byrja að virka áður en ferðastreitan byrjar.

Á flugvellinum er hundurinn tékkaður inn sérstaklega en fer ekki á færibandið með töskunum, heldur er sóttur af starfsmanni og komið fyrir í rýminu þar sem hann verður á leiðinni. Ef þú ert að fara til útlanda er mikilvægt að vera með alla pappíra og gögn í lagi. Þessi gögn þarf að sýna í tollhliðinu þegar þú lendir og verða að uppfylla skilyrði viðkomandi lands. Þetta þýðir líka að ef þú þarft að millilenda í öðru landi en þangað sem förinni er heitið verða ferðagögn að uppfylla skilyrði í landinu sem millilent er í. Það er mikilvægt að vera búin að kynna sér vel hvaða reglur gilda í landinu sem farið er til en á heimasíðu Matvælastofnunar (www.mast.is) er hægt að finna upplýsingar um reglur í þeim löndum sem algengast er að íslendingar ferðist til.

Það er mikilvægt að hafa samband við dýralækninn þinn í tæka tíð áður en farið er af stað, best er að gera það um tveimur mánuðum fyrir brottför til Evrópu og mun lengri tíma fyrir sum önnur lönd. Það er alltaf á ábyrgð eiganda að uppfylla skilyrði fyrir innflutningi þannig að best er að vera með allt á hreinu og taka enga sénsa.

Eins og sjá má er að mörgu að huga en að sama skapi er yndislegt að geta tekið hundinn með þegar farið er í ferðalög, hvort sem þau eru lengri eða styttri.

Comments