Eitt af því sem allir hundar þurfa að læra en gengur oft erfiðlega er að ganga fallega í taumi án þess að toga. Heilu bækurnar hafa verið skrifaðar um hvernig við kennum hundinum okkar að ganga í taumi en ég ætla að fara yfir nokkur grunnatriði sem þú þarft að hafa í huga til að gönguferðir verði sem skemmtilegastar fyrir bæði þig og hundinn þinn.

Fyrst er ágætt að spá í því hvers vegna við erum að fara í gönguferð? Flest erum við að fara í gönguferð bæði fyrir okkur og fyrir hundinn. Hundurinn þarf þá örvun og hreyfingu sem felst í því að fara út undir bert loft og við höfum sjálf gott af því að hreyfa okkur. Flestir hundaeigendur þakka hundinum sínum þá staðreynd að þeir fari yfirhöfuð út í gönguferð á hverjum degi. En það getur verið erfitt og leiðinlegt að fara í gönguferð ef hundurin lætur illa að stjórn og togar okkur fram og til baka.

Hvað er það sem hundurinn vill og þarf? Höfum í huga að hundurinn hefur áhuga á að fara yfir stöðuna á sínum “samfélagsmiðlum”, það er að segja þefa af öllu sem fyrir trýni ber. Fyrir hundinn er mikilvægt að kanna hverjir hafa farið um svæðið síðan hann gekk þar síðast og láta hina vita um sínar ferðir með því að merkja hér og þar. Hundurinn þarf líka útiveru og hreyfingu til að koma í veg fyrir leiða og vanlíðan. Flestir hundar vilja því líka hlaupa um og hreyfa sig. Ef þú ert með ungan og hraustan hund er því gott að skokka aðeins með hundinn eða ef þú treystir þér ekki til þess er gott að fara reglulega með hundinn og leyfa honum að hlaupa lausum til að losa um orkuna. Það er misjafnt hversu mikla hreyfingu hundur þarf en það fer eftir aldri og tegund hundsins. Það er í raun og veru eðlileg hegðun hjá hundi að toga í tauminn þegar hann fer út þar sem hundurinn hefur mikla þörf fyrir hreyfingu og vill kanna umhverfið en taumurinn takmarkar hreyfigetuna. Samt sem áður verður hundurinn að læra að ganga í taumi til að göngutúrar verði ánægjulegir fyrir alla.

Margir hafa farið í hundaskóla og reynt án árangurs að kenna hundinum að ganga “við hæl”. En hvers vegna erum við að kenna hundinum að ganga í beinni línu við hliðina á okkur eins og við séum að marsera á heræfingu? Þessi skipun er einmitt komin úr hernaðarþjálfun þar sem fyrstu hundaþjálfararnir voru einmitt hermenn og lögregluþjónar sem vildu kenna hundaeigendum að ala upp hundana sína með heraga eins og þeir höfðu sjálfir lært. Ég held því fram að hundurinn fái minna út úr útiverunni í þesskonar göngutúrum, það sé andstætt eðli hans að ganga í beinni línu og það sé ein helsta ástæða þess að svo margir eiga í vandræðum með að kenna hundinum að ganga fallega í taumi. Grunnatriði taumgöngu er ekki að ganga við hæl, heldur að ganga við slakan taum og án þess að toga okkur úr axlarlið. Að setja á hundinn keðju sem herðir að hálsinum og/eða rykkja fast í tauminn þegar hundurinn togar gerir afar takmarkað gagn í þjálfun og er satt að segja ekki í samræmi við dýravelferð. Við þetta má bæta að samkvæmt nýrri reglugerð um velferð dýra er núna loksins bannað að nota hálsólar sem þrengja að hálsi hundsins í þjálfun. Þesskonar aðferðir gera ekki annað en að valda streitu hjá hundinum og jafnvel langvarandi skaða á hálsi, bæði barka, vélinda og hálsliðum. Að þessu sögðu er þó ljóst að hentugast er að hundurinn gangi nokkurnvegin við hliðina á okkur til að við dettum ekki um hann þegar við erum að ganga. Það skiptir í raun og veru ekki máli hvoru megin en vinsælast er að hafa hundinn við vinstri hlið og nota hægri hendina til að gefa góðbita.

En hvað eigum við þá að gera? Við þessa þjálfun eins og alla aðra styðjumst við við grunnatriðin, að verðlauna þá hegðun sem við viljum sjá til þess að hundurinn skilji til hvers er ætlast af honum og ekki verðlauna hegðun sem við viljum ekki sjá.

Grunnatriðin til að hafa í huga:

Ekki nota hálsól sem þrengir að hálsinum. Ef þú ert með hvolp getur þú notað venjulega hálsól með taumi sem er um 1,5-2m langur eða fest tauminn í beisli sem fer utanum kroppinn. Ef þú ert með eldri hund sem togar nú þegar í tauminn er gott að breyta um tækni þegar þú byrjar þjálfunina upp á nýtt. Það er hægt að fá mjög góð beisli sem eru sérhönnuð til taumgönguþjálfunar og eru með festinguna fyrir tauminn framan á bringunni en ekki uppi á bakinu. Ef þú ert með festinguna uppi á bakinu er það eins og dráttarbeisli og erfitt að hafa stjórn á hundinum en þegar festingin er að framanverðu er erfiðara fyrir hundinn að toga. Það er líka hægt að fá beisli sem sett er um höfuðið (svipað og múll á hesti) og þannig stjórnar þú bara höfðinu en þarft ekki að togast á við hundinn. Sagt er að kroppurinn fylgi höfðinu og það á við hér.

Það getur líka verið gott að hafa taum sem er bundinn um mittið eða festa tauminn í belti á þér. Þannig næst oft meiri mótstaða ef hundurinn togar og þú hefur báðar hendur lausar til að stjórna hundinum.

Til að hundurinn skilji að það þýði ekki að toga í tauminn skaltu stoppa strax og standa kyrr um leið og taumurinn er strekktur. Hundurinn verður að læra að það þýðir ekki að toga vegna þess að við förum ekki áfram ef hann togar. Eftir smá stund fer hundinum að leiðast og hann lítur á þig til að sjá hvað er að gerast. Stundum getur verið ágætt að hrista tauminn aðeins til að ná athyglinni. Ekki hrópa eða skammast, haltu ró þinni og einbeittu þér að því að fá hundinn til að skilja það sem þú ert að reyna að kenna. Þegar hundurinn kemur til þín og það slaknar á taumnum fær hann hrós og góðbita og þú heldur áfram að ganga.

Stundum stendur hundurinn bara kyrr og bíður með tauminn strekktan en þá getur verið sniðugt að snúa við og fara í þveröfuga átt og verðlauna fyrir að elta á meðan taumurinn er slakur. Til að byrja með er eins og þú komist ekkert áfram, stoppar í hverju skrefi eða ferð afturábak, en það er allt í lagi. Tilgangurinn er að læra að ganga í taumi, ekki að komast á einhvern ákveðinn stað.

Þegar þú byrja æfingarnar er best að vera í litlu áreiti, jafnvel í stofunni heima fyrstu skiptin eða úti í garði og auka smátt og smátt áreitið með því að fara frá húsinu og á mismunandi staði. Ekki gera æfingar þegar þú ert að flýta þér eitthvert því það verður bara frústrerandi fyrir þig og fyrir hundinn.

Til að draga úr umhverfisáreiti við þálfunina sjálfa er gott að ganga rösklega þannig að hundurinn veiti því athygli hvert þú ert að fara og missi ekki áhugann.

Þegar þú ert að þálfa verður þú að vera mjög spennandi persóna og tilbúin með góðbita til að gefa hundinum þegar hann gengur í slökum taumi og beinir athyglinni að þér.

Nokkur orð varðandi svokallaða flexi-tauma eða tauma sem eru langar snúrur og dragast inn og út úr rúllu. Þessir taumar eru oft 5-8 metrar og geta verið hentugir fyrir þá sem eru að ganga á opnu svæði með hund sem er ekki búinn að læra innkall eða það má ekki sleppa hundinum lausum á svæðinu. Þeir henta ekki vel fyrir gönguferðir innanbæjar vegna þess að þegar hundurinn er í 5-8 metra fjarlægð frá þér hefur þú litla stjórn á því hvert hann fer. Hundurinn getur skyndilega tekið strikið á ská í taumnum, til dæmis út á götu ef eitthvað spennandi er hinummegin og það er ómögulegt að vera nógu snögg/ur að draga hann til baka. Eins getur verið vandamál að sumir hundar verða æstir og hlaupa af stað en fá svo mikinn rykk í hálsinn þegar þeir koma út á endann á taumnum. Þessir taumar geta hentað við sumar aðstæður fyrir rólega hunda sem eigandinn hefur fulla stjórn á en eru alls ekki fyrir alla.

Þessi þjálfun er auðveldari eftir því sem þú byrjar fyrr en eins og ég hef sagt áður þá er vel hægt að kenna eldri hundum allt mögulegt. Með eldri hund er gott að taka frá sérstakan tíma á hverjum degi til að kenna taumgöngu og vera þannig meðvituð um þjálfunina á meðan á henni stendur en ekki bara tilviljanakennt á meðan við erum í daglega göngutúrnum.

Í göngutúrum er mikilvægt að gefa sér tíma til að stoppa og þefa af blómunum og horfa í kringum sig en líka að fá blóðið á hreyfingu og ganga rösklega inn á milli. Það er því gott að kenna hundinum merki um það að nú förum við aftur af stað (t.d. “koma svo”) eftir að þú hefur stoppað til að leyfa honum að þefa, ganga svo rösklega af stað og verðlauna hundinn fyrir að elta í slökum taumi.

Gangi ykkur vel og njótið þess að hreyfa ykkur saman!

 

Comments