Það er ótrúlega mikilvægt að þjálfa hundinn í að koma alltaf þegar kallað er á hann. Þetta er ein af grunnskipunum sem allir hundar þurfa að kunna en ótrúlega margir eiga í erfiðleikum með að þjálfa þannig að hægt sé að treysta því að hundurinn hlýði alltaf. Öruggt innkall gerir þér kleift að fá hundinn til þín við hvaða aðstæður sem er og kemur í veg fyrir streitu ykkar á milli, t.d. þegar þú þarft að komast til baka eftir hlaupatúr á opnu svæði og jafnvel komið í veg fyrir stórslys ef hundurinn rýkur frá þér. Hundur sem ekki kann að hlýða innkalli ætti í raun aldrei að vera laus, sérstaklega ekki innan um aðra hunda eða á opnum svæðum.

Til að byrja með að er mikilvægt að reyna að setja sig í spor hundsins og skilja hvað það er sem drífur hann áfram og hefur áhrif á hans ákvarðanir. Fyrir hundinn eru samskipti við aðra hunda mjög mikilvæg og það mætti segja að þefskynið sé samfélagsmiðlar hundanna. Jafnvel þótt að enginn hundur sé sjáanlegur finnur hundurinn þinn allskonar lykt og getur útfrá henni fundið hvenær hundur var þar síðast, af hvaða kyni og svo framvegis. Ef þið eruð úti í náttúrunni getur hundurinn líka fundið lykt af öðrum dýrum, t.d. fuglum, músum og á sumum svæðum jafnvel kanínum, mink, ref og ef til vill húsdýrum. Í flestum tilvikum er löngunin til að þefa að þessu öllu saman sterkari en löngunin til að vera hjá húsbóndanum. Til að fá hvolpinn til að vilja koma til þín alltaf þegar þú kallar þarft þú þess vegna að bjóða upp á eitthvað sem er meira spennandi, sérstaklega í byrjun þegar hvolpurinn er enn að læra.

Þessi grunnatriði eiga við um hvolpa á öllum aldri en gilda líka um fullorðna hunda. Ef fullorðni hundurinn þinn er ekki enn farinn að hlýða innkalli áreiðanlega er möguleiki að þú hafir einfaldlega ekki eytt nægilegum tíma í þessa þjálfun og þá er hjálplegt að taka frá tíma til að þjálfa þessa grunnskipun enn betur því það er aldrei of seint að kenna hundinum. Spáðu líka í því hvort að þú hafir óvart gert einhver mistök í þjálfuninni sem hægt er að leiðrétta til að ná fram betri árangri. Það er hægt að leiðrétta mistök, það þarf bara skilning, dálitla einbeitingu og að gefa sér tíma.

Til að byrja með verður þú að velja orð sem hentar, ekki nota nafn hundsins sem neina skipun. Hundurinn lærir að þegar þú segir þetta orð er best að hætta öllu sem hann er að gera og koma til þín vegna þess að þú ert það mest spennandi sem til er og eftir á fær hann aftur að gera eitthvað skemmtilegt. Þú getur notað nafn hundsins til að ná athygli hans áður en þú segir skipunina nafnið er ekki það sem fær hann til að hugsa “nú þarf ég að hlaupa til eigandans”. Flestir velja einfaldlega orðið “komdu”.

Fyrst til að byrja með þarf að æfa í umhverfi sem er án truflana, til dæmis í stofunni eða garðinum heima. Notaðu tækifærið þegar hvolpurinn er að horfa á þig og kallaðu mjög glaðlega “komdu”, það getur verið gott að baða út höndum eða dilla sér hér í byrjun til að hvolpurinn verði forvitinn og komi hlaupandi til að sjá hvað er að gerast. Þegar það gerist þá ert þú tilbúin/n með góðbita sem þú lætur detta á jörðina fyrir framan þig. Í byrjun getur verið gott að endurtaka orðið þegar hvolpurinn er á leiðinni til þín til að merkingin síist inn en það á síðan að vera nóg að segja orðið einu sinni til að fá hann til að koma. Notaðu mismunandi góðbita, sumir hvolpar eru meira en til í að vinna fyrir bitum af þurrfóðri en það er samt góð hugmynd að vera stundum með meira spennandi bita, til dæmis ost eða pylsubita því þá fer hvolpurinn að verða spenntur fyrir því að sjá hvaða verðlaun eru í boði fyrir að koma til þín þegar þú segir orðið “komdu”.

Hafðu ekki áhyggjur, þegar það er búið að þjálfa innkallið þannig að hundurinn hlýði alltaf þarftu ekki lengur alltaf að gefa góðbita, stundum geta verðlaunin verið klapp og hrós eða leikur með leikfangi. En í byrjun skulum við nota mat því við skulum gera okkur grein fyrir því hver eru forgangsatriðin í lífi hvolps og nota okkur þau okkur til framdráttar. Það þýðir ekkert að vera í fýlu útaf því að þú sért ekki sjálfkrafa miðpunktur lífsins hjá hvolpinum og hann sé til í að gera hvað sem er bara til að vera hjá þér án þess að fá nein verðlaun. Við skulum líka muna að hundar tala ekki íslensku og fyrir hvolpinum er þetta orð bara hljóð sem þú gefur frá þér. Ef vel tekst til fáum við hvolpinn til að skilja að þetta hljóð þýðir að það borgi sig að koma strax til að fá æðisgengin verðlaun. Ef hundurinn þinn er “óþekkur” eða “óhlýðinn” þýðir það í flestum tilvikum einfaldlega að þér hefur ekki enn tekist að fá hundinn til að skilja hvað þetta hljóð þýðir. Þá er bara að halda áfram að þjálfa þar til það er komið alveg á hreint.

Þetta þýðir líka að þú mátt aldrei ekki vera æðisleg/ur þegar hvolpurinn eða hundurinn kemur til þín. Ef þú ert stundum ekki með á nótunum, verðlaunar ekki eða ert hreinlega með skammir og leiðindi, þá mun reynast mjög erfitt að þjálfa innkallið. Það er á þína ábyrgð að setja þjálfunina upp þannig að árangur náist og engum öðrum að kenna ef eitthvað fer úrskeiðis. Ekki sleppa hvolpi lausum á opnu svæði þegar þú þarft nauðsynlega að mæta í vinnuna eftir 20 mínútur og ert ekki búin/n að kenna áreiðanlegt innkall. Ekki sleppa hvolpi eða hundi lausum á opnu hundasvæði ef þú ert ekki búin/n að kenna áreiðanlegt innkall. Umfram allt, ekki skamma hvolpinn ef hann kemur loksins til þín eftir að hafa óhlýðnast. Ef hann kemur ekki þá er það af því að þú ert ekki búin/n að kenna honum nægilega vel og þegar hann kemur á endanum er það gott tækifæri til að fá hann til að skilja að þú sért æði og það borgi sig alltaf að koma til þín.

Í byrjun þegar þú ert að æfa innkallið borgar sig ekki að láta hvolpinn hlaupa lausann heldur hafa langa, létta línu fasta við ólina eða beislið. Þetta er ekki venjulegi taumurinn sem þú notar til að fara í göngutúra, heldur mjórri og léttari taumur sem truflar ekki þótt hann hangi á eftir hundinum þegar hann labbar. Það er hægt að kaupa svona þjálfunartaum eða nota bara létt snæri. Hentug lengd er 3-6 metrar. Þessi taumur gerir það að verkum að hvolpurinn getur ekki hlaupið í burtu þegar þú kallar og ef hann hikar þá getur þú togað í tauminn til að fá hann til að koma í áttina til þín.

Nokkur atriði til að hafa í huga við þjálfunina:

Ef hvolpurinn kemur til þín án þess að það sé kallað á hann (þetta gera oft ungir hvolpar) þá skaltu hrósa honum og gefa góðbita.

Ekki nota innkallið bara þegar leikurinn er að hætta og þið eruð að fara heim, þá vill hvolpurinn síður koma. Ekki kalla hvolpinn til þín til þess eins að troða honum svo beint inn í bíl eða í búrið sitt. Æfðu innkall stöðugt bæði inni og úti og leyfðu honum svo oftast að fara aftur að þefa og/eða leika.

Æfðu innkall líka með því að hlaupa í áttina frá hvolpinum og kalla “komdu”. Láttu hann ná þér og kastaðu til hans góðbita og hlauptu svo aftur af stað í aðra átt og endurtaktu nokkrum sinnum. Þannig verður innkallsæfing að skemmtilegum leik og hvolpurinn lærir að það borgar sig að fylgjast með þér til að týnast ekki.

Ef hvolpurinn er gjarn á að koma til þín en hlaupa svo strax í burtu þannig að þú getur ekki náð honum skaltu ekki gefa verðlaunin fyrr en þú hefur náð traustu taki á hálsólinni. Þannig lærir hvolpurinn að innkallið þýðir að koma alveg upp að þér, ekki bara nógu nálægt til að ná verðlaununum.

Æfðu innkall þegar þú sérð að hvolpurinn er upptekinn við eitthvað skemmtilegt (að þefa eða leika við annan hund) og leyfðu honum svo að fara strax aftur að gera það sem hann var að gera. Þannig lærir hann að innkallið er ekki merki um að við séum að fara að hætta því sem er skemmtilegt, heldur ánægjuleg viðbót.

Þegar hvolpurinn er farinn að koma til þín í hvert sinn sem þú kallar er best að breyta rútínunni með góðbitana þannig að hann fái stundum verðlaun og stundum ekki. Ekki hafa verðlaunin í annað hvert eða þriðja hvert sinn þannig að hann geti reiknað út hvenær er líklegt að verðlaun fáist, heldur hafa það tilviljanakennt. Þannig verður líka spennandi fyrir hvolpinn að sjá hvort núna fáist matarbiti eða ekki.

Gangi ykkur vel!

Comments