Margir eru í vandræðum með nýjan hvolp vegna þess að hann vill endalaust vera að flaðra upp um gesti, sérstaklega ef það er einhver sem hann þekkir. Þetta getur verið hvimleitt vandamál þar sem hvolpurinn getur skitið út og jafnvel rifið föt, velt börnum um koll og jafnvel fullorðnum ef um er að ræða mjög stóran hvolp.

 

Hvers vegna flaðrar hvolpurinn upp?

Ástæðan fyrir því að hundurinn flaðrar upp er að hann er að reyna að heilsa. Hundar heilsa meðal annars með því að hnusa af andlitinu og hvolpar sleikja munnvikin á hinum hundinum til að gefa til kynna að þeir séu undirgefnir og vilji vel. Það sem þú vilt gera er að kenna hundinum að þegar hann heilsar fólki sé æskilegt að hann geri eitthvað annað en að flaðra upp um það. Það er mikilvægt að verðlauna ekki hundinn óvart fyrir flaður, til dæmis með því að tala við hann (“ekki flaðra svona elskan” “nei þetta má ekki” eða eitthvað slíkt) eða snerta hann (t.d. að ýta honum niður er snerting sem hann getur tekið sem verðlaun). Þetta getur verið alveg sérstaklega erfitt þegar um er að ræða krúttlegan hvolp sem er svo ótrúlega glaður að sjá þig! Það getur verið erfitt að fá hvolpinn til að skilja þetta en ennþá erfiðara að fá gesti til að vera með í þjálfuninni því það er mun erfiðara að þjálfa fólk en hunda.

 

Hvernig fæ ég þá hvolpinn til að hætta þessu?

Þá snúum við okkur að þjálfuninni sjálfri. Ég mæli með því að nota ekki þvinganir eða ógnun við þessa þjálfun. Fólk er oft ekki sammála um hvað teljist ógnun en ég myndi segja að upprúllað dagblað sem er dúnkað á höfuðið er t.d. ógnun þótt því sé ekki beitt sem barefli þá virkar það samt með því að segja við hundinn “hlýddu eða ég lem þig með þessu upprúllaða dagblaði”. Það getur alveg virkað en er ekki góð leið til að ná jákvæðu og góðu sambandi við hundinn sinn. Mér var í gamla daga kennt að setja hnéð upp í bringuna á hundinum en það myndi ég aldrei gera í dag. Svo eru til allskonar aðferðir sem miða að því að gera flaður óþæginlegt til að láta hann hætta þessu, til dæmis að grípa í loppurnar og halda í þær þar til hvolpurinn fer niður og að setja hendina í trýnið á hvolpinum þegar hann hoppar upp. Ég myndi segja að þessar aðferðir geti mögulega valdið sumum hvolpum streitu og vanlíðan og myndi þess vegna ekki mæla með þeim, jafnvel þótt þær virki.

 

Jákvæða aðferðin þess að þjálfa hundinn til að skilja að hann eigi ekki að flaðra er flaður hundsað (krossleggja hendur og snúa sér undan þannig að hann fari niður) og síðan verðlaunar þú hegðun sem þú vilt sjá, sem er fjórir fætur á gólfi. Það er mjög sniðugt að gera æfingar þar sem þú ert tilbúin/n með góðbita og bíður þar til framfæturnir fara niður á gólfið og verðlaunar það (sniðugt að nota klikker í þetta fyrir þá sem nota svoleiðis en það er ekki nauðsynlegt). Það skiptir ekki máli þótt að hundurinn hafi verið að flaðra rétt á undan, því hann upplifir bara verðlaunin fyrir nákvæmlega þá hegðun sem á sér stað þegar góðbitinn kemur, þess vegna er mikilvægt að vera snöggur með bitann þegar fæturnir eru á gólfinu. Sumir hundar eru sáttir við að fá leikfang í munninn til að róa sig á meðan mesti æsingurinn gengur yfir.

 

Það er líka mjög snjallt að þjálfa hundinn til að gera eitthvað sérstakt til að heilsa í staðin fyrir að flaðra, til dæmis að setjast og heilsa með loppunni eða að snerta hendi með trýninu. Eins og ég sagði er erfiðasta vandamálið oft að þjálfa fólk sem kemur í heimsókn til að vera ekki að klappa hundinum þegar hann flaðrar og verðlauna hann þannig fyrir þessa hegðun sem þú ert að reyna að koma í veg fyrir! Þegar þú þjálfar hundinn á þennan hátt verður það ekki lengur neikvæð upplifun þar sem hundurinn hættir einhverri hegðun vegna slæmra afleiðinga, heldur upplifun sem er jákvæð bæði fyrir hundinn og eigandann og báðir upplifa að hafa náð árangri.

Comments