Í síðustu grein fjallaði ég um nokkur merki um streitu hjá hundum. Þá þótti mér tilvalið að hafa næst grein um það hvernig við getum hjálpað hundinum okkar að losna við streitu.

Svefn
Hundar hafa þörf fyrir mun meiri svefn en fólk. Hvolpar sofa að jafnaði um 18-20 klukkustundir á sólahring og fullorðnir hundar sofa vanalega um 16 tíma á sólahring. Hundur sem ekki fær nægan svefn getur orðið órólegur og æstur. Það er því mikilvægt að tryggja að hundurinn fái sinn svefntíma á hverjum degi. Það getur verið gagnlegt að útbúa öruggt svæði, til dæmis búr eða bæli, þar sem hundurinn getur farið og hvílt sig yfir daginn án þess að vera truflaður. Ef það eru börn á heimilinu þarf að kenna þeim að það má ekki trufla hundinn þegar hann sefur.

Hreyfing
Hreyfing er sömuleiðis mjög mikilvæg fyrir hunda. Þeir hafa þörf fyrir að hlaupa um og fá ferskt loft á hverjum degi því annars er hætt við að þeim leiðist og verði órólegir. Það er aðeins misjafnt eftir tegundum hversu mikla hreyfingu hundurinn þarf og einnig er einstaklingsmunur sem fer eftir aldri og skapferli. Eftir því sem hundurinn eldist verður hann oft rólegri og hefur minni þörf fyrir hreyfingu, sérstaklega ef gigt eða aðrir öldrunarsjúkdómar eru farnir að gera vart við sig. Hundar af smala- og veiðihundakynum þurfa vanalega mikla hreyfingu, um 1-2 klukkustundir á dag en hundar sem eru ræktaðir sem selskapsdýr eru oft sáttir við aðeins minni hreyfingu. Allir hundar þurfa samt sem áður að komast út reglulega yfir daginn og fá ferskt loft, teygja úr sér og hreyfa sig. Alveg eins og við sjálf. Það er því ekki að undra að hundaeigendur hreyfa sig oft meira að jafnaði en þeir sem ekki eiga hund.

Rútína
Hundar eru fremur vanafastir og ef hundurinn þinn er stressaður að eðlisfari er gott að reyna að hafa reglu á umhverfinu, t.d. að hafa matmálstíma á sama tíma á hverjum degi, fara út í göngutúr á fyrirsjáanlegum tíma og svo framvegis. Þrátt fyrir orðspor um annað hafa hundar mjög gott tímaskin og gera sér grein fyrir hvenær er kominn matmálstími ef hann er alltaf á sama tíma á hverjum degi. Miklar breytingar í umhverfinu eins og flutningar, óregluleg hreyfing, skilnaður, nýtt barn og fleira geta gert hundinn stressaðan og þá er gott að reyna að halda einhverskonar reglu á því sem tengist hundinum.

Nudd
Svo virðist sem nudd og snerting virki róandi á marga hunda en það er þó einstaklingsbundið. “Thundershirt” er einskonar vesti sem sett er utanum búk hundsins og gefur léttan þrýsting á brjóstkassa hundsins. Að minnsta kosti ein rannsókn hefur verið gerð sem sýndi fram á að hundar sem klæddust þessu vesti sýndu minni streitumerki í ókunnu umhverfi en þeir sem voru í vesti með engum þrýstingi eða í engu vesti. Thundershirt hjálpar mörgum hundum í skammvinnum streituaðstæðum, til dæmis um áramót eða í öðru tímabundnu áreiti.

Leikir
Hundar hafa mikla þörf fyrir andlega og vitsmunalega örvun, ekki síður en líkamlega. Hundar sem eru kvíðnir þola þó oft ekki mikla hasarleiki og betra er að bjóða upp á leiki sem örva heilasellurnar. Dæmi um slíka leiki eru feluleikir þar sem hundurinn þarf að leita að verðlaunum og þrautaleikir þar sem hundurinn þarf að leysa af hendi verkefni til að ná verðlaunum, það eru meira að segja til sérstök þar til gerð þroskaleikföng fyrir hunda.

Umhverfisþjálfun
Umhverfisþjálfun er alltaf mikilvæg en alveg sérstaklega fyrir hunda sem eru aðeins kvíðnir eða smeykir við aðra hunda. Það er sniðugt að hitta reglulega aðra góða hunda og læra góð samskipti, það er til dæmis hægt að gera með því að fara í heimsóknir til annarra hundaeigenda og leyfa hundunum að leika sér, gönguhópar með öðrum hundaeigendum og svo framvegis. Ef hundurinn þinn er mjög hræddur og verður reiður við hina hundana og vill ekki leika er best að leita sér aðstoðar hjá hundaþjálfara eða atferlisfræðingi.

Þjálfun
Það styrkir sjálfsöryggi hundsins að gera þjálfunaræfingar þar sem hundurinn upplifir að hann hafi einhverja stjórn á aðstæðum og geti kallað fram verðlaun og hrós frá eigandanum með hegðun sinni. Það skiptir í raun ekki máli hvað er þjálfað, bara að hundurinn sé að læra eitthvað nýtt og æfa það sem hann kann nú þegar. Mjög margir eigendur hafa haft góðan árangur af svokallaðri klikker þjálfun og einnig af hundafimi en hvoru tveggja er ánægjuleg þjálfun bæði fyrir eiganda og hund.

Afnæming og gagnskilyrðing
Til að draga úr kvíða, til dæmis ótta við snertingu, hræðslu við ókunnugt fólk eða dýr notum við aðferðir sem kallaðar eru afnæming (desenzitsation) og gagnskilyrðing (counter conditioning). Afnæming þýðir að venja hundinn hægt og rólega við það sem hann er hræddur við, það er gert með því að hann sjái eða upplifi það sem hann er hræddur við í fyrstu í mjög litlum skömmtum (létt snerting, sjá hund í fjarlægð) og auka áreiti svo smátt og smátt þangað til að hundurinn sýnir ekki lengur merki um kvíða. Gagnskilyrðing þýðir að breyta sannfæringu hundsins þannig að það sem hann var hræddur við áður verði nú tengt jákvæðri upplifun, með því að hundurinn upplifi að eitthvað jákvætt gerist þegar áreitið (t.d. snerting, ókunnugur hundur eða ókunnug manneskja) er nálægt. Bestur árangur næst þegar þessar tvær aðferðir eru notaðar samtímis enda getur verið erfitt að aðskilja þær. Mikilvægt er við alla þjálfun á hundum með kvíða að fara hægt og rólega fram, þekkja vel streitumerki og ofgera ekki hundinum við þjálfunina.

Ferómón
Ferómón eða lyktarhormón eru efni sem hundar nota til samskipta sín á milli. Adaptil líkir eftir ferómóni sem tíkur gefa frá sér í kirtlum í kringum spena þegar þær eru með hvolpa á spena. Efnið hefur róandi áhrif á hvolpa og fullorðna hunda og dregur úr kvíða. Þetta efni er ekki lyf og hefur engar aukaverkanir svo vitað sé. Adaptil hjálpar sérstaklega við væg tilfelli kvíða, aðskilnaðarkvíða, við heimsóknir til dýralæknis eða í nýjar aðstæður, til að venjast öðrum hundum og fleira. Ef ráðin hér að ofan duga ekki fyrir þinn hund og heldur ekki Adaptil ættir þú að íhuga að leita aðstoðar hjá hundaatferlisfræðingi.

Þarf hundurinn minn lyf?
Í flestum tilvikum er ekki þörf fyrir lyfjagjöf en ef um er að ræða erfitt tilfelli kvíða hjá hundi þá getur lyfjagjöf hjálpað mjög mikið. Oft er nóg að nota lyfin í nokkra mánuði á meðan unnið er í atferlismótun í samvinnu við atferlisfræðing en í sjaldgæfum tilvikum er mælt með lyfjagjöf í lengri tíma. Aðeins dýralæknir getur ávísað kvíðastillandi lyfjum fyrir hund en í flestum tilvikum er það gert í samvinnu við atferlisfræðing sem aðstoðar eiganda við atferlismótun hundsins samhliða lyfjagjöf því lyfjagjöf ein og sér gerir oftast takmarkað gagn til frambúðar.

Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi um öll úrræði við streitu en getur hjálpað flestum að komast af stað við meðhöndlun á vægum kvíða eða stressi hjá hundinum. Í sumum tilfellum getur reynst nauðsynlegt að leita aðstoðar hjá sérfróðum aðila.

Ef þú hefur áhuga á að læra meira um atferli hunda, heilsufar og þjálfun þá getur þú skráð þig á póstlistann hjá mér og fengið vikulegt fréttabréf með bæði fróðleik, skemmtifréttum og tilboðum.

Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á póstlistann

201603 Icepharma AF_vefbordinn-min

Comments