Margir eigendur tengja eyrnabólgu í hundum við sjúkdóm með sama nafni sem er algengur í börnum.  Þetta eru þó ólíkir sjúkdómar og í þessarri grein verður leitast við að skýra hvað felst í eyrnabólgu hjá hundum, hvað getur orsakað hana og hvernig hún er meðhöndluð.

Hvað er eyrnabólga í hundum?

Hjá börnum stafar eyrnabólga af sýkingu í miðeyra og ef hún er talin stafa af bakteríum eru gefin sýklalyf til inntöku, en veirusýkingar er ekki hægt að meðhöndla með sýklalyfjum.  Hjá hundum er þessu öðruvísi farið þar sem eyrnabólga í hundum stafar af húðsýkingu í ytra eyra.  Þessar sýkingar eru oftast af völdum baktería eða sveppa og stundum er um blöndu af þessum sýkingum að ræða.  Einnig eru til sníkjudýr sem lifa í eyrum, svokallaðir eyrnamaurar sem valda eyrnasýkingum.

Hvers vegna fá sumir hundar eyrnabólgu?

Þessarri spurningu er ekki auðsvarað, enda eru orsakir fyrir húðsýkingum margar.  Talið er að erfðir hafi eitthvað að segja, enda virðist eyrnabólga mun algengari í hundum með síð, lafandi eyru en í hundum með upprétt eyru.  Skýringin liggur líklega í því að í lafandi eyrum er hlustin umvafin og verður umhverfið þess vegna rakara, en í raka þrífast bakteríur og sveppir best.  Einnig eru auknar líkur á eyrnabólgu hjá hundum sem eru með hárvöxt í hlustinni, en ástæðan er líklega sú sama og hjá þeim með lafandi eyru, þ.e. aukinn raki.  Þetta sést helst hjá hundategundum sem eru með feld sem vex í sífellu, en fara ekki úr hárum.  Áður fyrr var til siðs að slíta hárin innan úr eyrunum hjá þessum hundum um leið og feldurinn var snyrtur, en það er ekki lengur mælt með þessarri aðferð, þar sem það eykur líkur á eyrnabólgu fremur en hitt.  Ástæðan er að þegar hárin eru slitin úr hársekkjunum kemur vessi úr þeim, sem liggur svo í hlustinni og virkar eins og æti fyrir bakteríur og sveppi.

Þar sem eyrnabólga er húðsjúkdómur kemur ekki á óvart að hundar sem eru með ofnæmi eru í aukinni hættu á að fá eyrnabólgur, enda er húðin á þeim viðkvæm fyrir.  Stundum eru þrálátar eyrnabólgur einu einkenni ofnæmis, en oftast eru ofnæmissjúklingar einnig með útbrot á öðrum stöðum á líkamanum.

Meðhöndlun

Vegna þess að sýkingin er í ytra eyranu er hún oftast meðhöndluð með eyrnadropum sem bornir eru í eyrað, en ekki með sýklalyfjum til inntöku nema í alvarlegum tilfellum.  Þar sem sumir eyrnadropar geta skaðað miðeyrað ef gat er á hljóðhimunni er reynt að ganga úr skugga um að hljóðhimnan sé heil áður en droparnir eru settir í eyrað.  Stundum reynist þetta erfitt verk vegna bólgu í hlustargöngum og mikillar útferðar.  Getur þá verið gott að deyfa hundinn og smúla eyrun með vatni til að hreinsa út drulluna, áður en eyrnadropar eru settir í eyrun, enda hefur lyfið litla möguleika til að virka ef það kemst ekki að húðinni sjálfri.  Einnig er mikilvægt að taka sýni og athuga hvaða bakteríur eru til staðar og næmi þeirra fyrir sýklalyfjum. Einnig er athugað hvort um sveppasýkingu eða eyrnamaurasýkingu er að ræða.

Eftir að hundur hefur einu sinni fengið eyrnabólgu er mikilvægt að eigandi fylgist vel með ástandi eyrnanna, skoði þau að minnsta kosti einu sinni í viku.  Oft kemur sérstök lykt af eyrnasýkingu sem eigendur læra að þekkja til að bregðast fljótt við þegar eyrnabólga er í uppsiglingu.  Oft er hægt að bægja frá eyrnabólgu með því að halda eyrunum hreinum og þurrum og fást til þess sérstakir vökvar, eyrnahreinsar.

Þrálát eyrnabólga

Sumir hundar eru svo ólánsamir að þjást af þrálátri eyrnabólgu, sem kemur upp endurtekið, þrátt fyrir meðhöndlanir.  Í slíkum tilvikum þarf að ráðfæra sig við dýralækni varðandi langtímameðhöndlun og greiningu.  Í langflestum þrálátum tilfellum er líklegt að sýkingin stafi í raun af undirliggjandi vandamáli í húðinni, til dæmis ofnæmi, skjaldkirtilssvandamál eða öðrum húðsjúkdómum.  Þessi vandamál þarf að greina og meðhöndla sérstaklega ef árangur á að nást í meðhöndluninni.  Það getur til dæmis flækt greiningu og meðhöndlun ef hljóðhimna hefur rofnað á einhverju stigi og sýking komist í miðeyra.  Stundum þarf að meðhöndla í lengri tíma með sýkla- og/eða sveppalyfjum.  Ef ekkert gengur og eyrnagöng eru orðin mjög þröng vegna langvarandi sjúkdóms getur verið hjálplegt að framkvæma skurðaðgerð á eyranu, þar sem eyrnagöngin eru opnuð til að það lofti betur um þau.

Að lokum

Mikilvægt er að halda eyrum hundsins hreinum og þurrum, en of mikil erting í formi ofnotkunar á eyrnahreinsum og eyrnapinnum getur líka valdið eyrnabólgu. Ekki nota eyrnapinna nema hafa fengið leiðbeiningar frá dýralækni fyrst.  Best er að skoða eyrun vikulega og hreinsa þau ef þörf er á.  Þerra löng og lafandi eyru eftir bað og sundferðir.  Aðra meðhöndlun ætti ekki að hefja, nema í samráði við dýralækni og eftir skoðun á hljóðhimnum.

IMG_7882

Hrein eyru með fíngerðu hári sem er gott að klippa stutt eins og hægt er.

Ef þú hefur áhuga á að fá reglulega sendar greinar og aðra fræðslu um hunda, heilsufar þeirra og atferli getur þú skráð þig á póstlistann minn með því að smella hér.

Comments