Núna nýlega tók ég upp facebook live vídeó og fjallaði aðeins um fyrstu hjálp fyrir hundinn að sumarlagi.

Þú getur horft á myndbandið hér fyrir neðan eða lesið textann fyrir neðan myndbandið.

Það er gott að vera vel undirbúin fyrir sumarið þar sem ýmislegt getur gerst þegar við erum á ferð og flugi.

Fyrst er rétt að tala um bíla. Ekki skilja hundinn eftir í bíl að sumarlagi þegar sólin skín. Þótt það sé ekki mjög hár lofthiti fyrir utan bílinn þá getur orðið mjög heitt inni í bílnum, til dæmis ef lofthiti er 14-15 gráður getur orðið 50-60 gráður í bílnum og ef lofthiti er 20 gráður getur orðið allt að 80 gráðu hiti inni í bílnum. Best er að skilja aldrei hundinn eftir í bílnum ef sólin skín. Ef þú þarft nauðsynlega að skilja hundinn eftir í bíl í smá stund þarf að leggja í skugga og skilja eftir rifu á glugganum og vatn hjá hundinum. Ég hef séð hunda alvarlega veika og jafnvel deyja eftir að hafa verið skildir eftir í bíl á Íslandi, þetta gerist ekki bara í útlöndum.

Ef þú ferðast með hundinn út á land í bílnum er nauðsynlegt að hafa sjúkrakassa með í bílnum og vera búin að fletta upp vaktsímanúmerum hjá dýralæknum á svæðinu, skrifa niður og setja í sjúkrakassann. Upplýsingar um vaktsíma dýralækna um allt land er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is

Ef slys verður er fyrst mikilvægt að athuga hvort hundurinn andar og hvort það sé púls. Ef dýrið andar en er meðvitundarlaust verður strax að hringja í neyðarvakt. Ef hundurinn er með meðvitund er næst athugað hvort hann getur staðið í fæturna. Ef ekki þarf að hringja í dýralækni. Ef hundurinn getur staðið er farið yfir hann nákvæmlega og skoðað hvort hann getur staðið í alla fætur og hvort það séu sár einhversstaðar. Ef þú ert í vafa um hversu alvarlegur áverki er borgar sig að hringja í vakthafandi dýralækni og ráðfæra sig.

Það er vinsælt að grilla á sumrin og algengt að hundar komist í allskonar afganga og fleira af grillinu. Þetta geta verið umbúðir af mat, plast, álpappír og líka bein og aðrir afgangar eða rusl. Stundum fer það í gegnum meltingarveginn án vandræða en stundum geta komið upp vandamál.

Ef bein hrekkur í öndunarveginn fer það ekki á milli mála, hundurinn reynir að hósta og ná aðskotahlutnum upp og verður strax mjög þungt haldinn. Þetta er mjög sjaldgæft en algengara er að eitthvað festist í vélindanu þegar hundurinn er að reyna að gleypa eitthvað sem er of stórt. Einkenni þess eru að hundurinn kúgast, hann fer að slefa mikið þar sem slefan kemst ekki niður og getur hvorki borðað né drukkið. Ef það gerist þarf vanalega að fara með hundinn til dýralæknis.

Stundum situr eitthvað fast í þörmum og eru helstu einkenni þess lystarleysi og uppköst. Stundum er hægt að losa stífluna með því að gefa parafínolíu, en ekki gefa hana nema tala við dýralækni fyrst í síma og vera viss um að það sé óhætt, hversu lengi er óhætt að bíða o.s.fr.

Stundum eru afleiðingar af ofáti á grillmat bara niðurgangur og þá er vanalega óhætt að bíða í 1-2 daga og sjá hvort það lagast ekki af sjálfu sér. Það er líka gott að gefa acidophilus gerla til að hjálpa þarmaflórunni að komast í lag aftur.

Ef þú vilt fá tékklista um hvað á að hafa í fyrstuhjálparsettinu fyrir dýrin geturðu smellt hér.

Comments