Ég hef fengið margar fyrirspurnir frá eigendum varðandi gelt í hundum. Algengt vandamál er að hundurinn geltir ef hann heyrir einhver hljóð fyrir utan húsið, ef einhver kemur að dyrunum og á fólk og dýr fyrir utan húsið (sem hann sér út um gluggann).

Fyrst þurfum við að átta okkur á því að gelt er eðlileg hegðun hjá hundum. Gelt er tjáningarform sem hundar nota við mismunandi aðstæður og því getur verið gagnlegt að byrja á því að spá í hvers vegna hundurinn er að gelta. Þar næst reynum við að breyta hegðun hundsins og fá hann til að bregðast við á einhvern hátt sem hentar betur fyrir okkar heimilislíf.

Hundar gelta til að láta eiganda vita af einhverju sem hann álítur vera ógn. Hundar gelta sem varnarviðbragð ef þeim finnst sér ógnað. Sumir hundar gelta til að fá athygli eða vegna þess að þeir eru stressaðir eða leiðist. Stundum hefur eigandi óafvitandi ýtt undir gelt hjá hundinum sínum með viðbrögðum sínum.

Ef þú vilt ekki að hundurinn verði æstur og gelti við að sjá fólk er mikilvægt að þú sjálf/ur æsist ekki upp og takir undir geltið. Þeir sem hafa prófað að hrópa á hundinn, skamma eða segja “nei”, “stopp” eða “hættu” hafa væntanlega tekið eftir því að það er vita gagnslaust í flestum tilvikum. Oftast lítur hundurinn svo á að eigandinn sé að taka undir geltið og að það hljóti að hafa verið ástæða til að gelta fyrst eigandinn er líka svona æstur. Það getur kannski þaggað niður í hundinum rétt á meðan eigandinn er að “gelta” en gerir lítið gagn til frambúðar.

Ef hundurinn geltir að fólki sem fer framhjá húsinu er hann vanalega að láta eiganda vita að einhver sé að nálgast. Hundurinn geltir líka á vegfarendur og póstburðarfólk til að reka þau burtu og það sem gerist vanalega er að viðkomandi fer framhjá húsinu og hundurinn heldur hróðugur að honum hafi tekist að forða heimilinu frá innrás. Ef eigandi hefur tekið þátt í að reka viðkomandi burt með því að gelta líka er það bónus í augum hundsins. Hegðunin mun því alltaf halda áfram nema eitthvað breytist í umhverfinu eða viðbrögðum eiganda.

Það eru ýmsar leiðir til að stjórna umhverfinu. Stundum er nóg að setja filmu eða gardínu neðst í gluggann sem hundurinn er að horfa út um til að fjarlægja hvatann til að gelta. Ekki láta hund sem geltir mikið vera eftirlitslausan úti í garði fyrr en búið er að taka á vandamálinu. Nágrannar munu þakka þér þessa einföldu aðgerð. Stundum hjálpar líka að setja barnahlið við dyr og hleypa hundinum ekki inn í herbergið þar sem glugginn er eða sem snýr út að götunni þar sem fólk er að ganga framhjá.

Næst er að taka á hegðun hundsins og reyna að breyta henni til hins betra. Taktu nokkrar mínútur og spáðu í því hvort það geti verið að þú sért óafvitandi að ýta undir geltið? Er hundurinn að gelta á þig frekar en á fólkið fyrir utan? Ertu að taka undir geltið með því að veita hundinum athygli (skammir og að taka hann upp og halda á honum eru hlutir sem hundurinn upplifir sem jákvæða athygli frá þér). Prófaðu að breyta þinni hegðun og sjá hvað gerist. Það getur verið gagnlegt að taka djúpt andann og hundsa geltið í smá stund, bíða þar til hundurinn hættir að gelta og verðlauna hann þá. Það skiptir engu máli þótt hundurinn hafi verið að gelta fyrir nokkrum sekúndum síðan, þú ert bara að verðlauna þá hegðun sem er í gangi nákvæmlega þegar þú gefur góðbitann. Sem minnir okkur á hvers vegna það er svo mikilvægt að vera nákvæmur við þjálfun hunda.

Það getur líka verið gagnlegt að tala rólega við hundinn og reyna þannig að sýna honum að það sé ekkert til að vera að æsa sig yfir. Það getur verið sniðugt að láta hundinn gera eitthvað sem hann kann, til dæmis að setjast. Flestir hundar hætta að gelta þegar þeir setjast niður og þá er hægt að verðlauna hundinn fyrir að sitja án þess að gelta. Í mjög slæmum tilfellum þar sem hundurinn róast ekki nóg til að taka við skipun þarf að eyða meiri tíma í þjálfun. Til dæmis er hægt að þjálfa með því að setjast við gluggann með nammi og bíða eftir að hundurinn sjái manneskju fyrir utan og gefa bita áður en hann byrjar að gelta. Raða í hann bitum svo lengi sem hann þegir en hætta ef hann byrjar að gelta. Þannig lærir hundurinn að ókunnugur úti = góbiti, en gelt á ókunnugan úti = ekki góðbiti.

Ég tók að mér fullorðinn hund sem gelti hátt og mikið við útidyrahurðina þegar blaðburðarmaðurinn kom kl. 5:30 á morgnana. Það tók ekki nema nokkra daga að laga það, ég hafði góðbita í lokaðri krukku á náttborðinu. Þegar hundurinn rauk af stað og út að útidyrahurðinni passaði ég að opna ekki augun og vera alveg slök. Ég talaði rólega til hennar og kallaði blíðlega á hana. Þegar hún hætti að gelta og kom aftur til mín fékk hún verðlaun. Eftir nokkra daga voru verðlaunin orðin meira spennandi en pósturinn og hún vék ekki frá mér. Hún sá fljótt að það var engin ástæða til að æsa sig yfir þessarri heimsókn póstsins og eftir um tvær vikur var hún alveg hætt að sýna viðbrögð og hélt bara áfram að sofa. Hún geltir enn ef einhver bankar á útidyrahurðina en ég ákvað að láta þessa hegðun eiga sig vegna þess að mér þykir ágætt að hún láti mig vita að einhver sé við dyrnar. Ef geltið verður of hávært eða þreytandi þá mun ég þjálfa hana til að hætta því líka.

Vonandi hjálpar þessi grein einhverjum en það væri gaman að heyra sögur frá ykkur sem hafið náð að stoppa gelt og hvernig þið fóruð að því.

Comments