Hvað er hnéskeljalos?

Hnéskelin situr framan á hnénu og ver hnjáliðinn fyrir hnjaski.  Hnéskelin er bein sem myndast í sin vöðva á framanverðu lærinu.  Vöðvi þessi er fastur með sin við efsta hluta sköflungsbeins að framanverðu og teygir sig upp á lærið.  Þegar vöðvin er krepptur réttist úr fætinum.  Hnéskelin situr í gróf fremst á neðanverðu lærbeini, rétt ofan við hnjáliðinn sjálfan.  Hún er einnig fest með sinum til sitthvorrar hliðar til að varna því að hún færist úr stað.

Hjá hundi með hnéskeljalos er í flestum tilvikum um að ræða arfgengan galla á vexti sköflungsbeins.  Sinafestingin framan á beininu vex þá til hliðar og hnéskelin togast út úr grófinni á lærbeininu.  Við þetta teygist á sinum sem halda hnéskelinni og liðpokum hnáliðarins. Oftast er um það að ræða að hnéskelin færist inn, það er nær innanverðum fætinum, en í sjaldgæfari tilvikum færist hún út á við.  Einnig getur hundur fengið hnéskeljalos eftir högg á hnéð/slys, sem veldur því að festingar hnéskeljarinnar slitna.  Þegar um slíkt er að ræða eru festingar framan á sköflungsbeini rétt staðsettar, en sinaskaði veldur því að hnéskelin færist úr stað.

Afleiðingar hnéskeljaloss eru í flestum tilvikum að hundurinn verður haltur og á seinni stigum að hundurinn hefur stöðuga verki í hnjánum, gengur ekki eðlilega og jafnvel geta fætur afmyndast, þannig að þeir bogna og hundurinn verður “hjólbeinóttur”.  Þetta gerist vegna þess ranga átaks sem kemur á hnjáliðinn þegar vöðvinn framan á lærinu er krepptur.  Þegar hnéskelin er í eðlilegri stöðu réttist úr fætinum þegar vöðvinn er krepptur, en þegar hnéskelin situr á hlið kreppist fóturinn í stað þess að réttast.

puppy running - blue roan english cocker puppy - 12 weeks old

puppy running – blue roan english cocker puppy – 12 weeks old

Hvernig veit ég hvort hundurinn minn er með hnéskeljalos?

Það getur verið erfitt fyrir hundaeiganda að finna hvort hnéskeljarnar eru lausar, sérstaklega ef hundurinn sýnir engin einkenni hnéskeljaloss.  Best er að biðja dýralækninn um að athuga hnéskeljarnar næst þegar þú ferð með hundinn þinn í árlega heilsufarsskoðun.  Dýralæknirinn þinn getur sagt þér hvort hnéskeljarnar í hundinum þínum eru lausar og í hvaða gráðu hann er flokkaður.  Til eru mismunandi flokkunarkerfi, en oftast eru gráðurnar taldar frá 0 og upp í 4.  Sjá töflu.

0 Hnéskelinni verður ekki hnikað úr grófinni
1 Mögulegt er að ýta hnéskelinni úr grófinni, en hún smellur strax aftur á sinn stað
2 Þegar hnéskelinni er ýtt úr grófinni, liggur hún utan grófarinnar þar til henni er ýttá sinn stað eða hnéliðurinn réttur
3 Hnéskelin liggur að jafnaði utan grófarinnar, en hægt er að ýta henni á sinn stað, þaðan sem hún skreppur á nýjan leik þegar hnéliðurinn beygist
4 Hnéskelin er föst utan grófarinnar

Ef hundurinn þinn haltrar stundum, en ekki alltaf getur verið um hnéskeljalos að ræða.  Sérstakt einkenni á hnéskeljalosi er ef hundurinn hleypur stundum á þremur fótum og heldur einum afturfæti út undan sér, en fer svo aftur að hlaupa á 4 fótum eftir að hafa hrist halta fótinn.  Þá hefur hnéskelin festst utan grófarinnar, en smollið á sinn stað þegar hundurinn hristir fótinn.

Meðhöndlun við hnéskeljalosi

Meðhöndlun við hnéskeljalosi er í flestum tilvikum skurðaðgerð.  Ef hundurinn hefur vægt hnéskeljalos (gráða 1-2) og sýnir engin einkenni er ekki endilega þörf á að gera aðgerð, betra getur verið að bíða og sjá hvort einkenni fara að gera vart við sig.  Hundar með hnéskeljalos af gráðu 2 geta verið einkennalausir, en það er einstaklingsbundið og í mörgum tilfellum er mælt með aðgerð.  Hægt er að meðhöndla einkenni tímabundið hjá sumum með bólgueyðandi lyfjum.  Ef hundurinn hefur hnéskeljalos af gráðu 3 eða 4 er mælt með aðgerð til að laga hnéskeljalosið þar sem miklar líkur eru á að hnéskeljalosið valdi hundinum kvölum, auk þess sem fætur hundsins geta afmyndast þegar hann beitir að jafnaði röngu átaki á vöðva, liði og bein.

Skurðlæknir velur meðferð í hverju tilfelli fyrir sig, en í flestum tilfellum er um þrískipta meðferð að ræða.  Í fyrsta lagi er sagaður fleigur úr grófinni sem hnéskelin situr í og hún dýpkuð með því að minnka fleiginn sem fjarlægður var, en honum er svo komið aftur fyrir í botni grófarinnar. Í öðru lagi er festing vöðvasinar á sköflungsbeini losuð frá beininu (sagað) og færð framan á beinið og fest þar með pinna til að halda festingunni á réttum stað, en þetta gerir að verkum að hnéskelin helst á réttum stað í grófinni.  Sjá mynd 4.  Í þriðja lagi er hert á liðpoka og sinum þegar verið er að sauma saman liðinn aftur.

Hnéskeljalos og ræktun

Í flestum tilvikum hnéskeljaloss er um að ræða arfgengan galla í vexti sköflungsbeinsins, eins og lýst var í upphafi greinarinnar.  Þessi galli er algengastur í smáhundum og kemur því miður oft fram þegar hundarnir eru orðnir nokkurra ára gamlir og jafnvel byrjað að nota þá í ræktun.  Mikilvægt er að nota ekki hunda til ræktunar sem hafa sýnt merki um hnéskeljalos og sýna ábyrgð þegar ræktunardýr eru valin, með tilliti til einkenna hjá foreldrum og næstu kynslóð á undan þeim.  Ræktunarfélög setja reglur um pörun og ræktun til að viðhalda heilbrigði tegunda og hjá sumum þeirra er skylda fyrir eigendur hunda af ákveðnum tegundum að útvega vottorð um los á hnéskel áður en hundar eru paraðir.  Er þetta gert til að reyna að minnka tíðni hnéskeljaloss innan tegundarinnar.

Ef þú hefur áhuga á að fá reglulega sent fræðslu- og skemmtiefni um hunda og gæludýr beint í innhólfið þitt getur þú skráð þig á póstlistann minn með því að smella hér.

Comments