Mikið hefur verið rætt og skrifað um fæðuofnæmi hjá hundum, en undirrituð hefur orðið vör við að misskilnings gætir oft varðandi þetta efni og mun ég í þessarri grein reyna að varpa nokkru ljósi á þetta efni.

Fæðuofnæmi getur tekið á sig ýmsar myndir, en helstu birtingarmyndir þess eru húðvandamál, meltingarvandamál og í sjaldgæfari tilfellum einkenni frá öndunarvegi og/eða taugakerfi.  Það getur hins vegar reynst erfitt að greina í sundur orsakir fyrir þess konar vandamálum, þar sem ekki er um greinileg einkenni að ræða og þau geta komið fram á mismunandi hátt hjá einstaklingum með sama sjúkdóminn.  Þess vegna ættir þú alltaf að hafa samráð við dýralækni þegar einhver af þessum einkennum eru til staðar hjá hundinum þínum.

Oft dettur eigendum ekki í hug að um fæðuofnæmi geti verið að ræða vegna þess að einkennin geta tekið nokkurn tíma að koma fram og tengjast því ekki endilega matmálstímum.  Að auki getur hundur þróað með sér ofnæmi fyrir fóðri sem hann hefur áður étið án vandkvæða, jafnvel árum saman.  Oft stafar ofnæmið af próteini, en hundar geta líka verið með ofnæmi fyrir hveiti eða hinum ýmsu bætiefnum í fóðrinu.

Húðvandamál vegna ofnæmis

Húðvandamál vegna fæðuofnæmis eða óþols greina sig ekki í útliti frá öðrum húðvandamálum og er því ekki hægt að greina þau bara með því að horfa á hundinn, þó geta dýralæknar oft haft hugmyndir um ástæðu húðsjúkdómsins eftir að hafa fengið nákvæma sjúkdómslýsingu og skoðað sjúklinginn.  Það sem helst greinir ofnæmissjúkdóma frá öðrum húðsjúkdómum, sem til dæmis geta stafað af vandamálum í innkirtlastarfsemi, er kláði.  Hundar eru venjulega ekki feimnir við að klóra sér og gera það oft í návist eiganda (ólíkt köttum, sem ekki vilja láta aðra sjá sig við svo óvirðulegar athafnir).  Kláðinn getur lýst sér með því að hundurinn sleikir vandamálasvæðið eða klórar sér með afturlöppunum.  Stundum vilja þeir nudda sér upp við húsgögn eða gólfteppi, einkum ef kláðinn er á höfði eða baki.

Erlendis er talið að fæðuofnæmi sé einungis lítill hluti ofnæmistilfella, en í flestum löndum er mun algengara að um ofnæmi fyrir munnvatni flóa eða annarra útvortis snýkjudýra sé að ræða.  Hingað til höfum við hér á Íslandi ekki haft margar tegundir af útvortis snýkjudýrum og hafa ekki greinst hér eiginlegar hunda- eða kattaflær (í upphafi árs 2016 greindi Matvælastofnun frá því að kattaflær hefðu greinst á nokkrum heimilum en ekki er vitað enn hvort takist hafi að uppræta hana).  Hundar geta líka verið með frjókornaofnæmi og ofnæmi fyrir ýmsum efnum í umhverfinu, svo sem teppum, nikkel, plasti og fleiru.

bráðaofnæmi

Mynd 1.  Bráðaofnæmi kemur fram strax eftir inntöku á ofnæmisvaldi. Heimild: Reedy, Lloyd M. & William H. Miller, Jr.  1989.  Allergic Skin Diseases of Dogs and Cats.  W.B. Saunders Company, Philadelphia.  Mynd 2-3, bls. 30.

Þegar grunur leikur á um fæðuofnæmi er best að greina það með útilokunaraðferð. Það er gert með því að fóðra hundinn með svokölluðu “hypoallergenic” fóðri í nokkrar vikur.  Þetta er hægt að gera með heimatilbúnu fóðri eða tilbúnu sjúkrafóðri frá viðurkenndum framleiðanda.  Grunnhugmyndin með þessu fóðri er að fjarlægja alla hugsanlega ofnæmisvalda úr fóðrinu í einhvern tíma, eða þar til einkenni eru horfin.  Það er ekkert fóður sem slíkt sem er algjörlega ofnæmisfrítt en til eru tvær tegundir af ofnæmisfóðri. Fyrri gerðin inniheldur prótein sem ekki er líklegt að hundurinn hafi fengið áður (og er því ekki líklegur til að hafa ofnæmi fyrir því), svo sem andakjöt, egg eða lax.  Kolvetnisgjafinn er oftast hrísgrjón þar sem þau valda sjaldan ofnæmi. Önnur gerð er fóður þar sem próteinið hefur verið meðhöndlað með sérstakri aðferð sem kölluð er hydrolisering. Þá eru próteinagnir brotnar niður í minni einingar sem valda síður ofnæmi. Það getur tekið nokkurn tíma, að jafnaði ekki skemri en 4-8 vikur, fyrir húðvandamálin að hverfa.  Eftir það er hægt að prófa sig áfram með að fóðra hundinn á hreinu próteini eða öðrum efnum sem talið er mögulegt að hundurinn sé með ofnæmi fyrir, en þá er hugmyndin að maður geti fundið það sem hundurinn hefur ofnæmi fyrir og forðast að fóðra með því í framtíðinni.  Ef sjúklingurinn hefur slæm einkenni eru oft notuð lyf fyrstu dagana eða vikurnar, til að lina þjáningar og fjarlægja bólgur og sýkingar.

ofnæmi

Mynd 2.  Við langvarandi sjúkdóm þykknar húðin og dökknar. Heimild: Kristensen Flemming. 1989. Atlas i hudsygdomme hos hund og kat.  DSR Forlag, Frederiksberg.  Mynd 86, bls. 47

Aðrar aðferðir til að greina ofnæmi eru húðsýni (þar sem fjarlægður er húðflipi af sjúklingnum og sendur til sérfræðings til greiningar), blóðprufur sem mæla ofnæmisprótein í blóði og svokallað “stungupróf” þar sem prófað er að sprauta nokkrum ofnæmisvöldum í litlu magni undir húðina og sjá hvort viðbrögð koma fram á staðnum þar sem sprautað var.  Þessar aðferðir eru því miður takmarkaðar en húðsýni sýna einungis að um ofnæmi sé að ræða, en ekki fyrir hverju.  Stunguprófið prófar einungis fyrir nokkrum ákveðnum ofnæmisvöldum, en það gefur jákvæða svörun í um helmingi tilfella.  Vandamálið er að í þeim tilfellum sem neikvætt svar fæst getur sjúklingurinn samt verið með ofnæmi fyrir einhverju sem ekki var prófað fyrir og í þeim tilfellum sem eru jákvæð er hugsanlegt að sjúklingurinn hafi ofnæmi fyrir fleiri hlutum sem ekki var prófað fyrir.  Blóðprufur sem prófa fyrir ákveðnum ofnæmisvöldum eru eru mikið notuð í dag. Þau gefa ágæta vísbendingu um fyrir hverju hundurinn er með ofnæmi en eru ekki 100% nákvæm og geta gefið fölsk jákvæð svör (jákvætt svar við einhverju sem hundurinn er síðan ekki með ofnæmi fyrir).

Samantekt

Húðvandamál getur verið erfitt að greina og þarfnast oft mikillar vinnu og þolinmæði, bæði að hálfu eigandans og dýralæknisins.  Einnig getur þetta ferli verið nokkuð dýrt, einkum ef taka þarf mörg sýni til að fastleggja greiningu.  Oftast er hægt að finna viðunandi lausn á vandanum ef vandað er til verka við greiningu.  Í sjaldgæfum tilfellum finnst ofnæmisvaldurinn ekki, eða erfitt reynist að forðast hann.  Í þeim tilfellum finnast engin önnur ráð en að meðhöndla sjúklinginn með lyfjum til langframa.

Ef þú hefur áhuga á að fá reglulega sent fréttabréf með allskyns upplýsingum og góðum ráðum um uppeldi, þjálfun og heilsufar hunda getur þú smellt hér til að skrá þig.

Comments