Þegar hvolpar eru á aldrinum 6-12 vikna eru þeir frá náttúrunnar hendi forvitnari og opnari fyrir nýjungum en á öðrum aldri. Þetta aldursskeið er kallað félagsskeiðið og er mjög mikilvægt í uppeldi hvolpsins. Á þessum aldri væri villihvolpur að hætta sér útur greninu og kynnast umhverfinu með aðstoð móður sinnar og gotsystkina. Þessi hegðun er því hvolpinum eðlislæg en þegar hann eldist minnkar nýjungagirnin og hvolpurinn verður tregari til að kynnast nýjum hlutum. Í uppeldi á hvolpi er því ótrúlega mikilvægt að kynna hann fyrir allskonar þáttum í umhverfinu til að venja hann við og minnka líkur á hræðslu við umhverfisþætti í framtíðinni, þetta köllum við umhverfisþjálfun. Umhverfisþjálfun verður erfiðari eftir því sem hvolpurinn eldist og þess vegna er svo mikilvægt að byrja á henni snemma.

Skortur á umhverfisþjálfun er algengasta ástæðan fyrir kvíða og ótta hjá hundum gagnvart ókunnugum hundum, fólki, börnum og hlutum. Kvíði og ótti eru algengasta ástæða þess að hundar urra, glefsa og bíta en þetta eru stærstu ástæður þess að hundar eru aflífaðir vegna hegðunarvandamála. Umhverfisþjálfun er því eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem nýr hvolpaeigandi stendur frammi fyrir. En umhverfisþjálfun er bæði gagnleg og skemmtileg þegar henni er sinnt vel.

Umhverfisþjálfun byrjar í raun strax hjá ræktanda/eiganda móður þegar hvolparnir eru orðnir nógu stórir og byrjaðir að hlaupa um. Samviskusamir ræktendur gæta að því að byrja strax að venja hvolpana við venjulega hluti og hljóð á heimilum, til dæmis þvottavélar, ryksugur og önnur heimilistæki en einnig allskonar fólk og börn á öllum aldri.

Fyrsta umhverfisþjálfun hjá nýjum eiganda felst í því að venja hvolpinn við nýja heimilið sitt þegar hann kemur á heimilið, oftast í kringum um 8 vikna aldurinn. Fyrstu dagana verður að taka því rólega og leyfa hvolpinum að venjast heimilisfólkinu og nýja umhverfinu.

Margir hafa áhyggjur af smithættu og sjúkdómum á þessum aldri þegar hvolpurinn er ekki búinn að fá allar grunnbólusetningar. Það er sjálfsagt að gera varúðarráðstafanir vegna þessa en umhverfisþjálfunin er svo mikilvæg að henni má ekki fresta framyfir félagsskeiðið. Passið að hvolpurinn sé bólusettur á réttum tíma (8, 12 og 16 vikna) og reynið að forðast að fara með ungan hvolp á staði þar sem er mikið um ókunnuga hunda. Það er alveg óhætt að heimsækja eldri hunda sem vitað er að séu bólusettir en umgengni við aðra hunda er hvolpinum einmitt mikilvæg til að hann læri góða líkamstjáningu og að virða mörk í leik.

Það er sniðugt að vera með lista uppivið um hluti sem við viljum venja hvolpinn á. Það er áminning til allra á heimilinu um að umhverfisþjálfun sé í gangi og sömuleiðis um hvað við þurfum að muna að kynna hvolpinn fyrir. Það sem mikilvægt er að kynna hvolpinn fyrir er meðal annars: börn á öllum aldri, aldraðir, fólk með staf/göngugrind/hjólastól, fólk með hatt og mismunandi klæðna, fólk af ýmsum gerðum, heimilistæki, flugeldar (nota upptökur af flugeldahljóðum), bílar, strætó, reiðhjól, fólk á hjólaskautum og brettum, vatn (sjór, lækur), skógur, biðstofa dýralæknisins og allt sem ykkur dettur í hug.

Oft kemur bakslag í kringum kynþroskaaldurinn þegar hvolpurinn verður aðeins óöruggari vegna allra hormónabreytinganna sem eru í gangi. Það gengur vanalega yfir á nokkrum vikum en mikilvægt er að eigandinn sé rólegur og sýni hvolpinum skilning og gott fordæmi. Hvetja hvolpinn áfram og verðlauna þegar hann yfirstígur hræðsluna.

Munum að öll þessi þjálfun á að vera skemmtileg fyrir bæði eiganda og hvolp en ekki þvingun. Hafið góðbita með ykkur hvert sem þið farið með hvolpinn og gefið honum reglulega og sérstaklega ef hann sýnir einkenni um væga hræðslu við eitthvað nýtt, verið þá uppörvandi og hvetjið hann áfram. Hvolpurinn nýtur þess að sjá umheiminn og kynnast bæði fólki og dýrum. Eigandinn nýtur þess að sýna nýja hvolpinn sinn og sjá hann eiga góð samskipti við fólk og dýr, auk þess sem hann nýtur þess þegar fram líða stundir að eiga hund sem er óhræddur og afslappaður innan um fólk og dýr.

Comments