Eitt af því sem er mikilvægt að skilja þegar við viljum þjálfa hundinn okkar er hvernig hundar læra og hvernig þeir hugsa. Hundar tala augljóslega ekki mannamál og skilja ekki orðin sem við notum. Fyrir þeim eru orð bara hljóð en þeir hafa mjög góða heyrn og geta lært að tengja saman ákveðin hljóð við umhverfið og þannig lært að skilja að þessi tilteknu hljóð hafi einhverja merkingu. Hundar sem búa á heimilum læra þannig töluvert af orðum án þess að þeim séu kennd þau sérstaklega. Til dæmis eru margir hundar á Íslandi sem skilja orðin “nammi”, “út að labba”, “fara í bílinn” og svo framvegis þótt eigandinn hafi ekki lagt sig sérstaklega fram um að kenna þau, hundurinn hefur einfaldlega lært að þessi hljóð tengjast einhverju sem gerist í umhverfinu. En það tekur langan tíma fyrir hund að læra á þennan hátt og þess vegna höfum við þjálfun sem miðar að því að hraða því ferli að hundurinn tengi saman hljóð eða bendingar og til hvers er ætlast af honum. Hundar tjá sig á annan hátt en fólk, þeir nota hljóð ekki mjög mikið en þeim mun meira af líkamlegri tjáningu, merkjamáli og lykt. Þess vegna eru hundar oft fljótari að læra merki sem gefin eru með höndum eða líkamstjáningu frekar en hljóðum. Sem þjálfarar erum við líka sjálf oft ekki meðvituð um þau merki sem við gefum ósjálfrátt með líkamstjáningu vegna þess að við erum svo vön því að tjá okkur með hljóðum. Það er mjög gagnlegt að kynna sér betur merkjamál hunda og læra meira um líkamstjáningu þeirra til þess að geta betur skilið hvað hundurinn gæti verið að hugsa og hvernig honum líður. Merkjamál hunda kemur hins vegar að takmörkuðu gagni sem tjáningarmáti fyrir fólk þar sem hundar eru ekki vitlausir og þeir gera skýran greinarmun á fólki og hundum. Meðal annars þess vegna þýðir ekki fyrir eiganda að reyna að nota urr eða aðra hundahegðun til að tjá sig við hundinn nema að mjög takmörkuðu leyti.

En hvernig eigum við þá að gera okkur skiljanleg við hundinn? Fyrst er ágætt að gera sér grein fyrir hvernig dýr tileinka sér þekkingu almennt. Það eru nokkrar reglur sem gilda almennt um það hvernig dýr læra og þetta hefur verið rannsakað mjög lengi af sálfræðingum og atferlisfræðingum. Nútíma þjálfunaraðferðir eru byggðar á rannsóknum á því hvernig dýr læra og hvernig er best að kenna þeim. Öll dýr læra með því að prófa sig áfram, það er þau prófa einhverja hegðun, ef hún gefur árangur (verðlaun) er sú hegðun líklegri til að verða endurtekin. Ef hegðunin gefur engan árangur (engin verðlaun, refsing) er hún líkleg til að hverfa. Þegar við erum að þjálfa hundinn þá reynum við að setja aðstæður upp þannig að æskileg hegðun er líkleg og við verðlaunum æskilega hegðun til þess að hundurinn sé líklegri til að endurtaka hana aftur.

Þetta hljómar ótrúlega einfalt en það er margt sem þarf að hafa í huga. Til dæmis þá er skilgreining okkar á árangri ekki endilega sú sama og skilgreining hundsins. Til dæmis er það merki um árangur í huga hvolps sem ekki hefur lært að vera húshreinn að kúka á gólfið án þess að vera skammaður. Það er merki um árangur í huga hundsins að komast í gómsætt bein í ruslafötunni. Það er merki um árangur í huga hunds sem þráir athygli frá eiganda að flaðra upp um hann og eigandinn talar við hundinn (þótt það séu evt. skammir) og snertir hundinn (ýtir honum niður). Á meðan hundurinn lærir ekki að slík hegðun sé óæskileg eða hvað hann á að gera í staðin til að ná meiri árangri (kúka úti í garði og fá hrós og verðlaun t.d.) þá mun hegðunin halda áfram. Eins er algengt að fólk skilji ekki hvernig refsingar virka og tilhneingingin hjá fólki er að ofnota refsingar eða beita þeim vitlaust þannig að hundurinn skilur ekkert fyrir hvað er verið að refsa. Í flestum tilvikum eru refsingar óþarfar og gera minna gagn í þjálfun en fólk heldur. Dæmi er þegar hvolpur sem ekki er búinn að læra rétta hegðun kúkar á gólfið og fær skammir. Eigandinn er hróðugur og heldur að nú sé búið að kenna hvolpinum að það megi ekki kúka á gólfið. En hvað lærði hvolpurinn? Mögulega lærði hann að eigandinn getur verið ógnvekjandi og óútreiknanlegur. Mögulega heldur hann að eigandinn sé viðkvæmur fyrir því að kúkað sé fyrir framan hann og ákveður því að það sé betra að kúka inni í næsta herbergi eða bakvið sófann þannig að eigandinn sjái ekki til. Þannig er hvolpurinn ekki búinn að læra það sem eigandinn heldur og refsingin hefur ekki skilað sér. Vandamálið við refsingar er að þær þurfa að vera mjög nákvæmar til að skila sér í skilningi hjá hundinum, auk þess sem þær geta gert meira tjón en gagn ef hundurinn verður hræddur eða skilur ekki hvað er verið að refsa fyrir. Refsingar eru því ekki gott tæki til þjálfunar og best að sleppa þeim.

En hvernig náum við þá að kenna hundinum? Best er að halda sig við jákvæða styrkingu í þjálfun þar sem hún hefur sýnt sig að gefa hraðastan árangur og er auðvelt að nota fyrir alla. Hvað er jákvæð styrking? Jákvæð styrking byggist á sálfræðilegu fyrirbæri sem er kallað skilyrðing (conditioning á ensku). Það eru til tvær tegundir skilyrðingar, klassísk skilyrðing (classical conditioning) og virk skilyrðing (operant conditioning). Klassísk skilyrðing er þegar dýr tengja saman einfalda atburði í umhverfinu og einhverskonar viðbrögð, frægt dæmi er tilraun rússneska vísindamannsins Pavlovs þar sem hundar á rannsóknarstofu voru alltaf fóðraðir á sama tíma dags þegar bjöllu var hringt á rannsóknarstofunni. Fljótlega komust starfsmenn rannsóknarstofunnar að því að hundarnir byrjuðu alltaf að slefa þegar þeir heyrðu í bjöllunni því þeir höfðu lært að tengja saman hljóðið í bjöllunni við matmálstíma. Virk skilyrðing snýst um að hegðun mótast af viðbrögðum í umhverfinu og eykst eða minnkar vegna afleiðinganna sem hegðunin hefur. Jákvæð styrking felst í því að fá hundinn til að gera það sem við viljum með því að verðlauna æskilega hegðun og jákvæð styrking er öflugasta leiðin til þess að auka tiltekna hegðun. Tökum sem dæmi aftur hvolpinn sem var ekki búinn að læra að gera stykkin sín úti. Það er búið að reyna skammir en þær urðu bara til þess að hvolpurinn fór að kúka í næsta herbergi. Ef við erum útsjónarsöm og förum með hvolpinn út í garð þegar hann þarf að kúka og verðlauna svo með miklum tilþrifum þegar hvolpurinn kúkar. Eftir örfá skipti áttar hvolpurinn sig á því að það borgar sig að kúka úti og fá verðlaun en missir áhugann á því að kúka inni þar sem engin verðlaun eru í boði. Sú hegðun að kúka inni hverfur því og sú hegðun sem er verðlaunuð eykst. Það sama gildir um hvaðeina sem við viljum kenna hundinum. Ef við lendum í vandræðum þurfum við að velta því fyrir okkur hvort hundurinn hafi virkilega lært það sem við vildum kenna og hvort við séum að verðlauna nógu nákvæmlega þá hegðun sem við viljum sjá og hvort við séum að hundsa þá hegðun sem við viljum ekki sjá. Dæmi sem ég sé oft er varðandi orkumikla hunda sem fá mikla neikvæða athygli út á æsing og læti. Oft er það þannig að þegar við hugsum til baka þá hefur hundurinn ekki verið verðlaunaður fyrir rólega hegðun (liggur loksins eða situr rólegur einhversstaðar) en fær mikla athygli fyrir óæskilegu hegðunina, flaður, gelt og læti.

Þessi grein er bara kynning á efninu en þegar við skiljum hvernig hundurinn lærir þá verður auðveldara að kenna honum.

Ef þú hefur áhuga á að lesa meira um þjálfun eru nokkrar greinar sem þú gætir haft áhuga á:

Hjálp, hundurinn minn geltir of mikið

Að kenna hundinum að ganga fallega í taumi

Að kenna hvolpi eða hundi traust innkall

Comments