Í þessarri grein ætla ég að fara yfir einföld ráð til að kenna hundinum þínum að virða mörk og líta til þín til að fá fyrirmæli um hvað má og hvað má ekki. Það er mikilvægt fyrir okkur sem eigendur að bjóða hundinum upp á afþreyingu en það er líka mikilvægt fyrir hundinn að skilja að það er eigandinn sem útvegar öll lífsins gæði, fóðrið birtist ekki bara fyrir töfra í dallinum, leikföng þarf að kaupa og við þurfum að hafa fyrir því að fara út með hundinn. Ég kalla þessar æfingar stundum “maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn” en það er tilvísun í bíómyndina Sódóma Reykjavík. Allir sem hafa séð myndina vita hvað þetta þýðir en fyrir þá sem ekki hafa séð myndina þá þýðir þetta að við ætlum að kenna hundinum að vinna fyrir því sem hann fær frá þér. Ein ástæða fyrir því að hundurinn gerir allskonar hluti sem okkur líkar ekki, t.d. Að ryðja okkur um koll þegar við opnum útidyrnar, flaðra upp um börn og hrifsa til sín það sem þeim er rétt er að hundinum hefur ekki verið kennt að virða mörk og bíða eftir fyrirmælum eiganda áður en hann gerir það sem hann vill. Hundar eru vinnudýr og þeir hafa ánægju af því að hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar það er ekkert að gera leiðist þeim og það getur líka valdið allskonar hegðun sem við erum ekki ánægð með, eins og að naga húsgögnin og róta í ruslinu. Þessar æfingar miða að því að kenna hundinum sjálfsstjórn og að líta til eigandans eftir fyrirmælum.

Það eina sem hundurinn þarf að kunna áður en við hefjum þjálfunina er að setjast þegar við gefum merki um það. Ef það er ekki alveg öruggt að hundurinn hlýði þessu strax þá æfum við nokkrum sinnum á dag þar til það er alveg á hreinu hvað það þýðir. Ekki bara heima hjá okkur, heldur allsstaðar. Í grunninn virkar þetta þannig að hundurinn þarf að setjast niður og bíða kyrr áður en hann fær nokkuð sem hann vill. Það á við um mat, leikföng, að fara út í göngutúr og svo framvegis.

Nokkrar æfingar til að byrja með:

Læra merkið “láttu kjurrt”. Láttu hundinn sitja, stattu fyrir framan hann og settu góðbita á gólfið hinum megin við þig þannig að þú sért á milli bitans og hundsins. Notaðu orðið sem þú hefur valið og láttu hundinn sitja kjurran í nokkrar sekúndur þar til þú gefur lausnarorð, gott er að nota “gjörðu svo vel”. Prófaðu að láta hundinn bíða lengur og gera æfinguna á fleiri stöðum, líka að vera ekki alltaf sjálf/ur fyrir bitanum, heldur prófa að vera fyrir aftan hundinn, prófa að láta hundinn leita að bitanum o.s.fr. Þetta er ekki bara skemmtilegur leikur, heldur líka æfing þar sem hundurinn lærir að þú stjórnar aðgangi að góðbitum.

Gamla góða reglan um að láta hundinn sitja kjurran á meðan þú setur matinn niður og ekki byrja að borða fyrr en þú gefur merki er enn í fullu gildi.

Láttu hundinn setjast og vera kjurr á meðan þú setur á hann beisli eða taum til að fara út. Ekki láta hann komast upp með að hoppa og skoppa þannig að þú ert í vandræðum með að setja tauminn á. Ekki skammast eða nöldra, bara bíða róleg/ur og endurtaka skipunina “sestu” þar til hundurinn situr kjurr. Ekki gera æfinguna ef þú ert að flýta þér, heldur taktu þér góðan tíma í að æfa þetta og ekki fara út fyrr en hundurinn situr kyrr. Sama gildir um að taka tauma, ólar og beisli af þegar heim er komið úr göngutúrnum.

Ef hundurinn er vanur að troðast út um dyrnar og ryðja þér um koll er gott að gera þessa æfingu líka þegar þú opnar dyrnar, láta hundinn sitja rólegan og ekki opna nema hann sitji kyrr. Það skiptir í raun ekki máli hvort hundurinn fer út um dyrnar á undan þér eða á eftir, aðal málið er að hann ryðji þér ekki um koll eða togi þig út.

Ekki hafa leikföng hundsins liggjandi útum allt hús þar sem hann getur náð í þau hvenær sem honum dettur í hug. Sama regla gildir hér og með krakka, hann fær leið á því sem er alltaf í boði. Hafðu leikföngin í körfu eða kassa og úthlutaðu til hundsins þegar hann vantar eitthvað að naga eða leika sér með og láttu hann setjast fyrst.

Ef þú ferðast með hundinn í sæti eða skotti á bíl láttu hann þá sitja rólegan og bíða þegar þú opnar bíldyrnar og bíða eftir lausnarorðinu.

Láttu hundinn setjast til að fá klapp og athygli frá þér. Þetta er oft erfiðasta æfingin, ekki fyrir hundinn, heldur fyrir eigandann. Við erum oft svo ómeðvituð um hvernig við gefum hundinum okkar athygli og gerum margt ósjálfrátt án þess að hugsa. Það er góð æfing að vera meira meðvitaður um hvernig við umgöngumst hundinn og hvaða líkamstjáningu við notum til samskipta. En sú einfalda leið að láta hundinn vinna fyrir öllu sem hann vill gerir þig að mjög mikilvægri persónu í lífi hundsins og hann mun bera meiri virðingu fyrir þér án þess að þú þurfir á neinn hátt að þvinga hann eða sýna yfirgangssemi í samskiptum.

Njótum samskiptanna með gagnkvæmri virðingu.

Comments