Nú eru jólin gengin í garð en það er ýmislegt sem ber að varast um jólin á þeim heimilum þar sem einn eða fleiri fjölskyldumeðlimir eru ferfættir og loðnir. Það er oft mikið að gera á neyðarvakt dýralækna um jólin vegna slysa og veikinda. Slysin geta alltaf gerst en margt er hægt að fyrirbyggja með því að vera meðvituð um hætturnar. Hér er listi yfir nokkra hluti sem gæludýraeigendur ættu að hafa í huga yfir hátíðarnar til að minnka líkur á því að þurfa að nota þjónustu dýralækna á þessum tíma. Ef hundur innbyrðir eitthvað sem getur verið eitrað er mikilvægt að ráðfæra sig við dýralækni á neyðarvakt.

1. Jólamaturinn

Margir vilja gefa gæludýrinu sérstaka jólamáltíð og það er alveg í góðu lagi fyrir flest dýr að bregða útaf vananum og gefa eitthvað sérstakt í matinn um hátíðarnar. Passið samt að halda magninu í hófi og hafið í huga að sumt sem við borðum á jólunum er alls ekki heppilegt sem matur fyrir dýrin.

Það eru ófá gæludýr sem þjást af magakveisu um hátíðarnar vegna ofáts á matarafgöngum af jólamatnum okkar. Mikið reyktur og saltaður matur, eins og hangikjöt og hamborgarhryggur, er ekki hollur fyrir gæludýrin okkar. Passið upp á að gengið sé tryggilega frá öllum afgöngum og rusli til að forvitnir ferfætlingar geti ekki farið sér að voða. Soðin bein geta flísast þegar þau eru brudd og valdið sárum í meltingarvegi og stærri bein geta setið föst.

2. Jólasælgæti

Um jólin er vinsælt að maula allskonar góðgæti en margt af því þola gæludýrin alls ekki að borða. Sérstaklega er vert að nefna súkkulaði og rúsínur en hvoru tveggja er mjög eitrað fyrir hunda. Varðandi súkkulaðið er það helst efnið theobromin í kakói sem veldur eitrun hjá hundum. Dökkt súkkulaði inniheldur mest magn af kakói og er því hættulegast en allt súkkulaði getur verið eitrað ef það er innbyrt í nægu magni. Rúsínur eru líka eitraðar fyrir hunda og dökkar súkkulaðirúsínur eru því stórhættulegar fyrir hundana. Passið alltaf að geyma súkkulaði þar sem hundar ná ekki til.

3. Áfengi

Hundar þola áfengi mun verr en fólk og eru þar að auki eru bæði vínber og bjórhafrar eitruð fyrir hunda. Þeir sem neyta áfengis þurfa þess vegna að passa upp á að hundar komist ekki yfir áfenga drykki um hátíðarnar.

4. Jólaskraut

Jólaskrautið er fallegt en sumt af því er ekki við hæfi gæludýra. Passið sérstaklega upp á að jólatréð sé utan seilingar fyrir forvitna ferfætlinga og íhugið hvort skrautið getur verið varasamt. Til dæmis jólakúlur eða annað skraut úr gleri sem getur brotnað. Eitt annað sem margir vita ekki af þá er saltleir mjög eitraður fyrir hunda. Hann getur verið freistandi vegna lyktarinnar af deigi en ofneysla á salti getur verið mjög hættuleg.

5. Pakkabönd

Pakkabönd geta verið spennandi leikföng en þau geta verið mjög hættuleg ef hundur eða köttur gleypir þau. Það getur verið erfitt að finna langa og mjóa aðskotahluti í þörmum en helstu einkenni þess að eitthvað sitji þar fast eru uppköst, lystarleysi og slappleiki.

6. Eitraðar plöntur

Sumar heimilisplöntur eru eitraðar fyrir dýrin en jólastjarna og kristsþirnir sem eru oft á borðum um jólin eru þó ekki mjög eitraðar og valda vanalega bara vægum eitrunareinkennum með ertingu í slímhúð.

7. Jólatréð

Fersk jólatré ilma vel og eru vinsæl. Það getur verið skaðlegt fyrir hundinn að naga greinarnar á jólatrénu, trjásafinn er ertandi fyrir slímhúðina og ef hundurinn gleypir nálarnar geta þær bæði sært meltingarveginn og jafnvel valdið stíflu ef þær eru innbyrtar í miklu magni.

8. Kerti

Lifandi ljós eru falleg og jólaleg. Þau eru líka spennandi fyrir marga ferfætlinga, sérstaklega hvolpa og kettlinga. Ófá trýni hafa verið sviðin eftir að hafa komið of nálægt kertaloganum. Pössum líka upp á að ekki sé hætta á að heimilisdýrið velti kertaskreytingum um koll.

 

 

Mínar bestu óskir um örugg og gleðileg jól hjá ykkur öllum!

Comments