Hvolpar hafa gaman að því að leika sér með leikföng en það er alveg óþarfi að ganga berserksgang í gæludýraversluninni og kaupa öll leikföng sem til eru eða að kaupa öll dýrustu leikföngin. Það er heldur ekki sama hvernig leikið er við hvolpinn því leikir eru mikilvægt tól til að fá útrás og til að kenna hvolpinum sjálfsstjórn.

Gott er að byrja með bolta, tuskudýr og nagdót. Passið að boltar og nagdót séu það stór að hvolpurinn geti alls ekki gleypt þau. Tennisboltar eru ekki góð leikföng fyrir hvolpa sem vilja naga boltann. Yfirborðið á tennisboltum er mjög hrjúft og með tímanum sest sandur í það og virkar eins og sandpappír á tennurnar. Þegar hvolpurinn stækkar og fær fullorðinstennur er hætta á því að glerungurinn eyðist og þær slípist niður en dýratannlæknar sjá oft mjög illa farnar tennur eftir tennisbolta. Eins er hætta á því að tennisboltar sem eru holir að innan rifni og festist utan um tungu hundsins. Sama gildir um að leika með steina, það verður að stoppa strax því það fer mjög illa með tennurnar, auk þess sem það er hætta á að hvolpurinn gleypi steinninn og hann festist í þörmum.

Tuskudýr er hægt að fá í leikfangaverslunum en gamlir bangsar frá börnum eru líka í lagi. Það er hægt að fá ódýra bangsa í Góða Hirðinum til dæmis sem eru góð leikföng fyrir hunda eftir eina umferð í þvottavélinni. Hér gildir það sama og með börn, passið að það séu ekki plaststykki á bangsanum (augu eða trýni) sem hægt er að naga af og gleypa. Hvolpurinn hefur gaman að því að fá útrás fyrir rándýrseðlið með því að elta bangsann, hrista, stökkva á hann og rífa hann í sig. Hafðu ekki áhyggjur af því að svona hegðun geri hvolpinn árásarhneigðan, allir hvolpar og hundar þurfa að fá útrás fyrir sitt eðlislæga atferli. Það er líka hægt að nota pappakassa í þessum tilgangi.

Nagdót getur verið af ýmsu tagi. Það er hægt að fá sérstök nagbein eða leðurbein í gæludýraverslunum en ég ráðlegg fólki að kanna hvaðan þessi bein koma og kaupa ekki eitthvað sem er innflutt frá Kína eða öðrum löndum þar sem reglur um notkun á eiturefnum eru ekki þær sömu og á vesturlöndum. Eins geta þurrkuð svínseyru og rófur verið varasöm vegna hættu á salmonellu. Það eru nokkur dæmi um að slíkar vörur hafi verið innkallaðar vegna smits. Hrá stórgripabein eru góð nagbein bæði fyrir hvolpa og fullorðna hunda. Passið að kaupa nógu stórt bein til að hvolpurinn geti alls ekki gleypt það og gefið það hrátt þar sem eldun gerir hundinum auðveldara fyrir að bíta af stykki sem hann getur gleypt. Það er líka hægt að fá sérstök leikföng sem gerð eru úr mjög sterku gúmmíi og hægt er að fylla með einhverju sem hvolpurinn hefur áhuga á og heldur honum uppteknum í einhvern tíma. Það er hægt að nota blautfóður eða blöndu af þurrfóðri og blautfóðri eða jafnvel hnetusmjör (ath alls ekki nota hnetusmjör með sætuefnum) til að fylla svoleiðis leikföng. Fyllt leikföng er líka hægt að búa til heima úr litlum umbúðum, t.d. tómum smjördollum eða klósettpappírsrúllum sem eru fylltar og límt fyrir opin.

Ekki hafa leikföngin liggjandi um allt gólf eins og hráviði því það er eins og hjá börnum ávísun á að hvolpurinn fái leið á þeim. Betra er að hafa þau í leikfangakassa og afhenda hvolpinum þegar hann þarf eitthvað til að leika með. Látið hvolpinn gera eitthvað til að fá leikfangið, til dæmis að setjast eða eitthvað annað sem hann kann. Það kennir hvolpinum sjálfstjórn og að eigandinn stjórnar því hvenær er leikið og hvenær leikurinn hættir, auk þess sem eigandinn stjórnar úthlutun verðmæta á heimilinu.

Þegar verið er að leika við hvolpinn þarf að hafa í huga að hann er að læra að þekkja sín mörk og þess vegna getur verið gott að forðast hasarleiki þar sem hvolpurinn er til dæmis að togast á við eigandann og æsist mjög mikið upp. Betra er að nota leiki sem tæki til kennslu, til dæmis að kasta bolta og láta hvolpinn sækja og setjast til að fá verðlaun. Einnig er hægt að fá sérstök leikföng sem örva hugsun og hafa ofan af fyrir hvolpinum, einskonar þroskaleikföng fyrir hunda. Það eru til dæmis þrautir þar sem góðbitar eru faldir í hólfum og hundurinn þarf að finna út úr því hvernig hann nær bitunum út.

Leikir eru mjög mikilvægir fyrir hvolpa og góð afþreying fyrir bæði hvolp og eiganda. Góða skemmtun!

Comments