Það er spennandi fyrir fjölskylduna að fá nýjan hvolp en það vill oft gleymast að það er ekki endilega jafn spennandi fyrir þau dýr sem eru fyrir á heimilinu. Það er ekki hægt að tryggja það að eldri hundinum líki vel við nýja hvolpinn alveg frá upphafi en það er hægt að gera ýmiskonar ráðstafanir til að auka líkurnar á að samskiptin gangi greiðlega fyrir sig.

Hundar eru almennt félagslynd dýr en þeir eru samt hver með sinn persónuleika og eins og hjá okkur mannfólkinu þá líkar þeim ekki við alla sem þeir hitta. Þegar nýr hvolpur kemur á heimilið skynjar hundurinn sem fyrir er þetta litla dýr sem ákveðna innrás á sitt yfirráðasvæði og sína fjölskyldu. Hundar hafa sitt eigið tungumál og það er mikilvægt fyrir okkur hundaeigendur að reyna að skilja merkjamál þeirra til að geta betur áttað okkur á því hvernig þeir eiga samskipti sín á milli og til að gera samskipti okkar við hunda árangursríkari. Flest samskipti hunda ganga út á að draga úr líkum á árekstri og þeir hafa mikinn “orðaforða” af lempandi merkjum, eða merkjum sem þeir gefa öðrum hundum til að gefa til kynna að þeir vilji vera vinir.

Fyrstu dagana og vikurnar getur eldri hundurinn sýnt hvolpinum merki um óánægju með því að urra og glefsa (sýna tennur en ekki bíta) í áttina að hvolpinum. Hundar skynja vel aldur annarra hunda og þeir vita að hvolpur er hvolpur. Fullorðnir hundar hafa gjarnan meiri þolinmæði gagnvart hegðun hvolpa og eftir fyrsta áfallið við innrásina á heimilið (tekur oft um 3-5 vikur) sýna þeir jafnvel of mikla þolinmæði og leyfa hvolpinum að komast upp með ýmislegt sem við viljum ekki að hvolpurinn geri við aðra hunda, eins og til dæmis að glefsa í eyrun, rífa í feldinn og hoppa á eldri hundinn.

Hvolpurinn er enn að læra umgengnisreglur og árangursrík samskipti við aðra hunda og þarf á því að halda að honum séu lagðar reglur í samskiptum. Þegar hvolpurinn var að leika sér við gotsystkyn var eina reglan að það væri bannað að meiða hina (þeir væla ef leikurinn gengur of langt) en samskipti fullorðinna hunda eru mun flóknari og þeir hafa allskonar reglur um hvað má og hvað má ekki í umgengni við hvorn annan. Þegar eldri hundurinn urrar í áttina að hvolpinum er hann að kenna honum að virða mörk, ekki stela leikföngum, ekki stela mat, ekki hoppa á hausnum á mér, ekki rífa í eyrun á mér og svo framvegis.

Til að ná hámarksárangri við kynningu og sambúð hvolps og eldri hunds eru gott að hafa eftirfarandi í huga.

Eftirlit

Ekki láta hvolpinn og hundinn vera eina saman fyrstu vikurnar. Það þarf að fylgjast með þeim eins og ef um hund og barn væri að ræða. Ef þú sérð að hvolpurinn gengur of nærri eldri hundinum þarftu að stoppa hegðunina með því að beina athygli hans annað eða jafnvel fjarlægja hann í bili. Þannig finnur hvolpurinn að það má ekki gera hvað sem er og eldri hundurinn finnur að þú hefur stjórn á aðstæðum og hann er öruggur.

Aðskilnaður

Notaðu leikgrindur, barnahlið og jafnvel búr til að aðskilja hvolpinn frá fullorðna hundinum ef leikurinn verður of ærslafullur og eldri hundurinn þarf hvíld. Það getur verið gott ráð að ef þú sérð að eldri hundurinn er orðinn þreyttur og pirraður að hann fái að vera útaf fyrir sig og fá eitthvað að naga, til dæmis fyllt leikfang (Kong er upplagt í þetta og t.d. hægt að frysta blautmat inni í því), nagbein eða hrátt bein. Ef eldri hundurinn er vanur búri getur verið að hann leiti í það til að fá frið frá hvolpinum. Stundum getur líka verið gott að taka hvolpinn til hliðar og setja í leikgrind eða bakvið barnahlið, sérstaklega ef hann er búinn að vera lengi að leika sér og þarf hvíld. Hvolpar hafa mikla svefnþörf og eins og með börnin þarf fullorðna fólkið stundum að hafa vit fyrir þeim og stoppa leikinn fyrir hvíldartíma.

Refsingar og verðlaun

Ég mæli með því að nota aldrei skammir í svona tilvikum þar sem þær vekja upp neikvæðar tilfinningar hjá bæði hvolpinum og eldri hundinum og hjálpar ekki til að þeir verði vinir. Notaðu frekar verðlaun, bæði fyrir hvolpinn og eldri hundinn þegar þú sérð að samskiptin eru góð. Ef hvolpurinn nálgast eldri hundinn rólega og sá eldri urrar ekki, verðlaunaðu það. Láttu þá setjast niður báða og verðlaunaðu þá fyrir það og svo framvegis. Ef þú finnur að þú hefur mikla tilhneigingu til að skamma annaðhvort hvolpinn eða eldri hundinn þá er þörf á að nota meira hvolpagrindur, hlið og búr til að aðskilja þá þar til samskiptin batna.

Varúðarmerki

Það er vanalega engin hætta á því að eldri hundur bíti hvolp, nema í þeim tilvikum þar sem eldri hundurinn hefur sögu um árásarhneigð gagnvart öðrum hundum og hefur bitið áður. Einnig ef þú sérð að hvolpurinn vælir undan eldri hundinum og sá eldri hættir ekki eða bakkar þegar það gerist. Ef þú ert í þeim sporum mæli ég með að aðskilja þá strax og reyna aftur síðar. Fá jafnvel í kjölfarið einkaviðtali við góðan hundaþjálfara ef vandamálið lagast ekki.

Góð sambúð

Eftir nokkrar vikur muntu taka eftir því að samskiptin batna til muna og það er afar sjaldgæft að ekki takist að venja hunda saman. Kannski verða þeir ekki bestu vinir en geta að minnsta kosti búið saman í sátt og samlyndi.

Comments