Nú hefur verið viðurkennt samkvæmt íslenskum lögum um velferð dýra að þau séu skyni gæddar verur. Þetta er nýjung í lagasetningu en í samfélaginu hefur það verið viðurkennd staðreynd í nokkurn tíma og sumum kann að þykja óþarft að taka slíkt fram í lagasetningu. Að mínu mati er þetta stórt skref í þá átt að viðurkenna að dýr hafi sjálfstæðann rétt til að ekki sé farið illa með þau og að í dýrahaldi sé gerð krafa um að uppfylla eðlislægar þarfir dýranna eftir bestu getu.

Þannig hefur það þó ekki alltaf verið. Aristoteles er gjarnan talinn upphafsmaður þeirrar heimspekikenningar að maðurinn sé öðrum dýrategundum æðri en slíkar hugmyndir er líka að finna í Biblíu kristinna manna t.d. Lengi vel var sú kenning ríkjandi að dýr væru einmitt ekki skyni gæddar verur. Ein skýrasta kenning í þá veru kom frá franska heimspekingnum Descartes (1596-1650). Hann færði rök fyrir því að dýr gætu ekki fundið sársauka eða haft aðrar tilfinningar, svo sem ótta eða vellíðan, þau væru einskonar vélar og allar athafnir þeirra væru ósjálfráð viðbrögð. Þá tíðkaðist til dæmis að framkvæma krufningar á lifandi dýrum (vivisection) og talið að augljós merki um vanlíðan væru eingöngu slík ósjálfráð viðbrögð en ekki merki um að dýrin finndu til. Þetta viðhorf hefur smám saman verið að breytast fram á okkar daga. Í dag eru ekki lengur framkvæmdar krufningar á lifandi dýrum en erfiðlega hefur gengið að útrýma hugmyndum um að það sé í lagi að framkvæma sársaukafullar aðgerðir, s.s. geldingar á dýrum án deyfingar. Þrátt fyrir að búið sé að sýna fram á með óyggjandi hætti að taugakerfi spendýra sé í engu frábrugðið taugakerfi mannsins og því engin ástæða til að ætla að þau finni minni sársauka en við.

En þrátt fyrir að almennt sé viðurkennt á Íslandi í dag að dýr hafi tilfinningar og sársaukaskyn, séu skyni gæddar verur, er sú hugmyndafræði að sum dýr séu æðri en önnur dýr enn ríkjandi. Dýrum er gjarnan skipt í hópa eftir mikilvægi og eru gæludýrin gjarnan talin standa hjarta okkar næst, þá nytjadýr svo sem hestar og önnur húsdýr, þar næst villt dýr en hópur dýra kenndur við meindýr rekur svo lestina.

Meindýr er ekki líffræðileg skilgreining, heldur eru meindýr gjarnan skilgreind sem hvert það dýr sem er mönnum til ama, sbr ákvæði í reglugerð um meindýraeyðingu en þar eru meindýr skilgreind sem mýs og rottur “…sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við hýbýli manna, í peningshúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv.” en einnig er hægt að skilgreina vargfugl (svartbak og hrafn) á sama hátt ef þeir valda tjóni eða óhreinindum. Í nýjum lögum um velferð dýra er til dæmis sérstaklega bannað að drekkja dýrum, nema ef um er að ræða skipulagða eyðingu á mink á vegum hins opinbera. Þarna er ein dýrategund tekin fyrir og látin þola þjáningar sem ekki eru taldar boðlegar þegar um önnur dýr er að ræða. Aðrar aðferðir við eyðingu á mink eða öðrum meindýrum eru litlu betri. Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að eyðing meindýra sé í einhverjum tilfellum nauðsynleg en að mínu mati er líka nauðsynlegt að huga að því með hvaða hætti slíkt er gert.

Lengi hefur til dæmis tíðkast að láta hunda hlaupa uppi mink og verður oft úr því blóðugur bardagi þar sem bæði hundar og minkar skaðast. Þrátt fyrir að í nýjum lögum um velferð dýra sé sérstaklega kveðið á um að ekki megi etja saman dýrum til áfloga nýta mörg sveitarfélög þjónustu minkaveiðimanna sem hafa hunda í sinni þjónustu. Þetta gera mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en einnig hafa komið fram efasemdir um að aðbúnaður minkaveiðihunda sé fullnægjandi, sbr. fréttir af hundabúrum í Helgadal þar sem minkahundar eru haldnir.

Ég vil einnig sérstaklega nefna gildrur fyrir mýs og rottur sem virka þannig að spjald með klístruðu yfirborði, svokölluð límspjöld, eru sett út og dýrin veidd í þau. Lítil dýr festast í líminu og dauðinn er oftast hægur og kvalafullur úr vökva- og næringarskorti. Stundum festist trýni dýrsins við límið og dýrið deyr úr köfnun. Slíkar gildrur hafa verið seldar í búðum hér á landi en að mínu mati er það alls ekki ásættanlegt að dýrin séu látin kveljast í þessum gildrum og deyja hægum og kvalafullum dauðdaga. Reyndar tel ég notkun þeirra stangast á við ný lög um velferð dýra og hvet til þess að bæði sala og notkun á slíkum gildrum verði alfarið bönnuð.

Það er engin líffræðileg ástæða til þess að ætla að mýs, rottur og minkur hafi minna sársaukaskyn eða séu á einhvern hátt minna skini gædd en hundar eða kettir. Þrátt fyrir það hef ég orðið vör við að óbeitin á þessum dýrum er svo sterk hjá sumu fólki að talið er réttlætanlegt að drepa þau með hvaða aðferð sem tiltæk er.

Í samfélagi þar sem viðurkennt er að dýr séu í raun skyni gæddar verur er ekki hægt að réttlæta það að sum dýr séu jafnari en önnur dýr. Höfum það í huga þegar við stöndum frammi fyrir óþægindum sem við kunnum að verða fyrir vegna dýra sem ekkert hafa til saka unnið annað en að berjast fyrir viðurværi sínu, sama hvort um er að ræða mýs, rottur, mink eða villiketti.

(greinin birtist í Dýraverndaranum, tímariti Dýraverndarsambands Íslands, árið 2014)

Comments